Er óhollt fyrir fóstur ef móðir borðar kökudeig?

26.03.2008

Komið þið sælar og takk fyrir alveg frábæran vef:)

Getið þið sagt mér hvort það sé mjög óhollt að borða hrátt deig? Mér þykir alveg rosalega gaman að baka og baka oft í viku. Mér finnst líka gott að fá mér smá smakk af kökudeiginu og þetta smá verður kannski stundum fullmikið.

Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé mjög óhollt, ekki þá vegna þess að í deiginu séu hrá egg heldur einnig magn lyftidufts.

Bestu kveðjur, Eva.

 


 

Sæl og blessuð!

Við leituðum til Gríms Ólafssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun og hann sendi okkur eftirfarandi svar:

„Lyftiduft og bökunarsódi innihalda sama virka efnið, natríum bíkarbónat. Efnið gefur frá sér CO2, þegar það kemst í snertingu við vatn og sýru. Ég get ekki sagt til um hvort þetta er óhollt en þykir það ólíklegt nema e.t.v. í stórum skömmtum. Ég man ekki betur en sum magalyf s.s. Alkaseltzer og slík innihaldi karbónat sem gefur frá sér CO2. Síðan innihalda að sjálfsögðu allir gosdrykkir sama efni.“


Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. mars 2008.

Eftir ábendingu frá lesanda vefsins þann 1. apríl er rétt að bæta við eftirfarandi:

Ef kökudeigið inniheldur hrá egg er alls ekki æskilegt að borða það vegna hættu á matarsýkingu.