Leg- og blöðrusig

13.02.2008

Hver eru einkenni leg- og blöðrusigs?  Hverjar eru líkurnar á leg- eða blöðrusigi skömmu eftir fæðingu?


Komdu sæl!

Einkenni um leg-og/eða blöðrusig geta verið mismunandi, allt frá því að vera engin eða mikil og það getur komið fram eitt einkenni eða mörg. Einkennin geta verið frá blöðru t.d. þvagleki eða erfiðleikar við að tæma blöðruna. Einnig geta einkenni verið frá endaþarmi eða við hægðalosun t.d. erfiðleikar við hægðalosun, hægðatregða eða hægðaleki. Síðan geta einkenni verið frá leggöngum t.d. það bungar e-ð niður í leggöngin eða e-ð bungar út um leggöngin, sem sést eða finnst við snertingu. Einnig getur komið fram þyngsla-eða þrýstingstilfinning niður. Aðal áhættuþættir varðandi leg-og blöðrusig eru nokkrir og geta verið samverkandi t.d. fæðing um fæðingarveg, hækkandi aldur konu og hækkaður líkamsþyngdarstuðull þ.e. yfirþyngd eða offita. Orsök leg-og/eða blöðrusigs má yfirleitt rekja til þess að vöðvar í grindarbotni hafa gefið sig og veita því líffærunum í grindinni ekki þann stuðning, sem þeim er ætlað. Hef ekki tölur yfir líkur á að þetta gerist skömmu eftir fæðingu en t.d. er þvagleki töluvert algengur eftir fæðingu, sem getur lagast með tímanum og við þjálfun grindarbotnsvöðvanna. Þvagleki þarf ekki endilega að tengjast blöðru-eða legsigi heldur oftar slöppum grindarbotnsvöðvum.

Ef þú ert e-ð að velta fyrir þér hvort þú hafir leg-eða blöðrusig ættirðu að leita til læknis til að ganga úr skugga um það, svo þú fáir viðeigandi meðferð ef þarf.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. febrúar 2008.