Spurt og svarað

21. september 2006

Lengri nætursvefn hjá tvíburunum mínum

Sælar ljósmæður og takk fyrir góðan og gagnlegan vef.

Mig langar til að bera undir ykkur tvö atriði, en ég eignaðist tvíburastelpur í lok júní á þessu ári og eru þær því að verða þriggja mánaða. Þær eru fæddar mánuði fyrir tímann, vóu 9 merkur og voru í rúma viku á vökudeild vegna gruns um sýkingu. Núna hef ég þær eingöngu á brjósti, en fyrstu tvo mánuðina voru þær að fá smá ábót, eða um 50-100 ml þurrmjólk á kvöldin. Það tók smá tíma að koma brjóstagjöfinni í gang, en það hafðist með því að bíta á jaxlinn og núna finnst mér þetta ekkert mál. Ég gef þeim oftast báðum í einu. Það fyrsta sem hvílir á mér er að fyrir um viku síðan tóku þær báðar upp á því að lengja svefninn á nóttunni, eða allt upp undir 7-8 tíma samfleytt, en höfðu áður verið að vakna á 4 tíma fresti. Einhversstaðar las ég það á vefnum ykkar að framleiðsla minnki ef meira en 6 tímar líða á milli gjafa. Og ekki eru þær að drekka oftar eða lengur á daginn, en þá líða oftast 3 tímar á milli. Spurningin er því hvaða áhrif lengri nætursvefn barna hefur á mjólkurframleiðslu?

Annað sem hvílir á mér er að ég á erfitt með gang fyrst eftir að ég vakna á morgnanna vegna stirðleika í fótum, eða nánar tiltekið í ökklum og ristum. Ég var með mikinn bjúg á meðgöngunni, en samt með lágan blóðþrýsting. Kvensjúkdómalæknirinn sagði mér að vera kynni að lágt estrógenmagn í blóði væri orsakavaldurinn, en um leið og ég hætti brjóstagjöf þá myndi stirðleikinn hverfa. Ég hef aldrei heyrt um svona lagað áður og ég asnaðist til að gleyma að spyrja hann betur út í þetta. Getur þetta verið skýringin á stirðleikanum? Og er eitthvað sem ég get gert til að minnka stirðleikann, annað en að hætta með þær á brjósti? Ætla samt að láta mig hafa það þótt ekkert ráð sé til.

Bestu kveðjur, Tvíburamamma.


Sælar!

Ef mjólkin helst þrátt fyrir þennan langa nætursvefn, þá er það bara gott. Brjóstin þín fá heilmikla örvun ef þær eru að sjúga á 3ja klst fresti yfir daginn,þannig að svefn fyrir þig yfir nóttina getur verið af hinu góða. Það eru alltaf nokkur börn sem sofa svona vel og mjólkin helst hjá mæðrunum þrátt fyrir að það líði meira en 6 tímar á milli gjafa. Farðu eftir þinni eigin tilfinningu ef þér finnst mjólkin haldast og ef litlu dæturnar eru sáttar þá er þetta bara í góðu lagi. 

Með stirðleikann í fótum,öklum og ristum veit ég lítið um, nema stundum er bjúgur á þessu svæði og það getur valdið þessum einkennum. Annars er þetta meira atriði sem læknir getur svarað.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.