Líkur á að eignast barn með Downs-heilkenni

03.09.2007

Nú er þannig háttað hjá mér að ég er orðin ófrísk, er samt ekki búin að komast í neina skoðun ennþá, en sem sagt unnusti minn á bróður sem er með Downs heilkenni og vill hann láta tékka á fóstrinu hjá okkur hvort ekki sé allt í lagi. En nú spyr ég; Eru miklar líkur á að við eignumst núna barn með Downs, við erum nú mjög ung, ég er tvítug og hann 22 ára.

Kveðja, ég.


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Líkur á því að kona eignist barn með Downs heilkenni virðast aðallega vera háðar aldri konunnar. Umdeilt er hvort aldur föður skipti máli en flestir hallast að því að svo sé ekki. Það er einnig mögulegt þó það sé sjaldgæft að þessi litningagalli liggi í ættum og því er sjálfsagt fyrir ykkur að láta kanna þetta betur ef þið hafið áhuga á því. Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við ljósmóður á þinni heilsugæslustöð ef þú vilt fá nánari upplýsingar m.a. um þær skimanir og greiningarpróf sem mögulegt er að gera á meðgöngu. Hér á síðunni er að finna upplýsingar um Samþætt líkindamat og Hnakkaþykktarmælingu.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. september 2007.