Lítill svefn og brjóstamjólk úr pela

17.01.2008

Vil byrja á því að þakka fyrir æðislegan vef, leita óspart hingað til að fá svör við mínum spurningum. En núna er ég með spurningar.

Ég á æðislegan 6 vikna strák sem sefur alltof litið!  Það er talað um 16-20 tíma á sólarhring en hann sefur rétt um 10 tíma!  Hann var nú bara eins og klukka a tímabili þar sem hann vaknaði alltaf klukkan 12 á miðnætti og vakti til klukkan 6 um morguninn og sofnaði þá. Svaf þá í 3-4 tíma og svaf svo mjög óreglulega yfir daginn. Hann grætur nú samt ekki mikið.  Hann á til með að gráta aðeins þegar hann er svangur eða orðinn rosalega þreyttur, en hann þrjóskast nú samt við og heldur sér vakandi! Hann vaknaði um 2 í nótt og sofnaði ekki aftur fyrr en klukka 10 í morgun! Þetta getur ekki gengið svona lengur. Ég trúi því ekki að þetta sé gott fyrir hann og við foreldrarnir þurfum svefn þar sem við erum i skóla. Hann á til að hósta og hnerra oft, hann hágrætur og rembist stundum. Er eitthvað sem ykkur dettur i hug að se að angra hann eða hvað sé hægt að gera við þessu?

Svo önnur spurning.
Drengurinn átti mjög erfitt með að taka brjóst þegar hann fæddist svo ég notaði mexíkanahatt i langan tíma. Hann fékk svo guluna og varð mjög latur. Gulan hvarf en hann var frekar latur við að drekka og nennti einfaldlega ekki að reyna að taka geirvörtuna og drakk frekar lítið með mexíkanahattinn. Eftir mikið basl við að lata hann drekka gafst ég upp og handpumpa mig nú í pela og gef honum. Ég finn fyrir því að fólk gefur þessari aðferð minni hornauga og það talar endalaust um það að ég sé að missa af svo miklu, eins og nánd við barnið og annað. Ég hef líka fengið að heyra það frá eldri konum að það sé ekki jafn gott fyrir barnið að fá brjóstamjólkina úr pela eins og að fá hana úr brjóstinu sjálfu, næringin minnki ef mjólkin sé hituð aftur.
Ég verð mjög döpur yfir þessu því auðvitað vil ég aðeins það besta fyrir barnið mitt. Er eitthvað til i þessum gömlu konum?

Kveðja, þreytt pelamamma.

 


Sælar!

Ég myndi ráðleggja þér að láta lækni skoða drenginn þar sem að þú segir að hann eigi til að hósta og hnerra oft og hágráta stundum og einnig að hann rembist stundum - bara til öryggis að útiloka að einhver veikindi séu að angra hann - eins og eyrun eða eitthvað annað. Hann er fullungur til að vaka svona mikið.
 
Mér finnst þú vera mjög dugleg að mjólka þig og gefa barninu móðurmjólk úr pela -- mér sýnist að þú gerir þitt besta úr þínum aðstæðum. Varðandi næringuna fyrir barnið úr móðurmjólkinni - þá eftir því sem ég best veit er hann að fá þá bestu næringu sem hugsast getur - hvort sem hann drekkur úr pela eða beint úr brjóstinu.

Gangi þér vel og endilega haltu áfram að gefa honum móðurmjólk.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. janúar 2008.