Ljósfaðir eða yfirsetumaður

09.02.2006

Þakka góða síðu!

Hef reyndar velt fyrir mér námi í hjúkrun og svo ljósmóðurfræði.  Væri mér heimilt sem karlmanni að stunda slíkt nám?  Hvert yrði þá starfsheiti mitt? Með von um góð svör.

Jói :0)

.......................................................................................................

Sæll og takk fyrir að leita til okkar!

Að sjálfsögðu er þér heimilt að sækja nám í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Starfsheiti hjúkrunarfræðinga var áður hjúkrunarkona og nú eru margir karlmenn hjúkrunarfræðingar.

Sem svar við spurningu þinni um starfsheitið, þá langar mig að vitna í bókina Ljósmæður á Íslandi (Ljósmæðrafélag Íslands, 1984), bls. 229:

„Karlmenn sem fengust við fæðingarhjálp voru oft kallaðir yfirsetumenn. En eins og yfirsetukonur voru kallaðar ljósmæður voru þeir líka kallaðir ljósfeður. Vonandi fá þessi fallegu íslensku starfsheiti - ljósmóðir og ljósfaðir - að standa óáreitt bæði tvö og jafnrétthá í framtíðinni, en ekki verið tekið upp á því að gefa stéttinni heitið fæðingarfræðingar, sem einhverjir hafa látið sér detta í hug, þó ekki ljósmæður sjálfar.“

Karlmenn starfa sem ljósmæður víða í heiminum t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi og þar er talað um þá sem „male-midwives“því enska heitið „midwife“ þýðir í raun með (mid)- konu (wife). Þú getur t.d. farið inn á www.google.com og sett inn leitarorðið male midwife og þá geturðu lesið þér til um að hvernig er að vera karlkyns ljósmóðir.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. febrúrar 2006.