Ljósmæðranám í Bandaríkjunum

03.07.2006

Góðan daginn!

Ég er í haust að fara á lokaár í sjúkraþjálfunardeild Háskóla Íslands og hef mikið verið að velta ljósmóðurfræðum fyrir mér. Ég veit að á Íslandi eru inntökuskilyrði í ljósmóðurnám að hafa lokið við BS í hjúkrun en ég hef bara engan áhuga á hjúkrunarfræðinni en brennandi áhuga á ljósmóðurfræðinni. Ég hef leitað mér upplýsinga á vefnum og veit að í New York fylki í Bandaríkjunum býðst þeim sem hafa heilsutengda menntun að baki, þ.á.m. sjúkraþjálfun að læra ljósmóðurfræði og verða það sem kallast CERTIFIED MIDWIFE. Yrði slíkt nám viðurkennt á Íslandi?

 


 

Sæl og blessuð!

Eins og þú veist hefur hjúkrunarnám verið undanfari ljósmæðranáms hér á landi síðan 1982. Þær sem hins vegar hafa ekki lokið hjúkrunarnámi en fá starfsleyfi hér þurfa samkvæmt reglum EB að hafa þriggja ára ljósmæðranám að baki. Slíkt nám er t.d í Danmörku og á mörgum stöðum í Bretlandi. Í USA er þessum málum háttað þannig að nokkrir staðir bjóða það að fara í ljósmóðurfræði eftir grunnnám í háskóla sem getur þá alveg eins verið sálfræði, sjúkraþjálfun eða hvað sem er. Ég veit satt að segja ekki hversu langt það nám er en samkvæmt því sem ég sagði að ofan þá er krafan sú að sé hjúkrun ekki undirstaða sé ljósmæðranámið þrjú ár. Umsókn um ljósmóðurleyfi eftir nám í USA eins og þú lýsir yrði að skoða í samhengi við það.

Kveðja,

Helga Gottfreðsdóttir,
ljósmóðir - formaður ljósmæðraráðs,
3. júlí 2006.