Ljósmóðurnám - köllun eða praktísk ákvörðun

17.02.2005

Sælar og takk fyrir greinargóðan vef.

Ég er 27 ára, hef unnið í heilbrigðisgeiranum, en á engin börn. Ég er að velta því fyrir mér að fara í ljósmóðurnám í Bretlandi og er að spá og spekúlera ...

  1. Ljósmóðurnám í Bretlandi er tvennskonar, hjúkrun með ljósmóður viðbótarnám, eða 3 ára BSc gráða í ljósmóðurfræðum. Ég veit að það fyrra fær réttindi á Íslandi, en myndi það seinna gera það líka? Ég geri mér grein fyrir því að fyrra er náttúrulega fjölbreyttara upp á starfsmöguleika að gera, en er nú samt að spá í ljósmóðurina eingöngu.
  2. Er „betra“ að vera sjálf orðin mamma þegar maður er nemi? En þegar maður er orðin ljósmóðir? Eða skiptir það engu máli?
  3. Er þetta eitthvað sem verður alveg að vera köllun eða eru fleiri en ég sem eru að spá í þetta út frá praktískum ástæðum? Þá er ég að spá í að þetta er færanlegt starf, fólk mun alltaf eignast börn, gefandi starf og gefur af sér líka. Ég er svolítið svona í „bjarga heiminum“ gír þessa dagana en er voða praktísk líka. Því miður finnst mér þetta tvennt stundum fara svolítið illa saman.
  4. Er einhver leið að hitta starfandi ljósmóður til að sjá betur hvernig starfið myndi eiga við mann? Geri mér grein fyrir því að fæðingin sjálf er kannski minnsti hlutinn af starfinu, meðganga og eftirfylgni eftir fæðingu stærri partur.

Kærar þakkir,
Draumórastelpa.

.......................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Gaman að heyra að þú hefur áhuga á ljósmóðurstarfinu.

  1. Nú veit ég ekki hvort 3 ára ljósmóðurnám frá Bretlandi yrði viðurkennt hér en þó þætti mér það líklegt þar sem 3 ára námið í Danmörku er viðurkennt hér. Breskar ljósmæður standa framarlega í faginu og við leitum oft í fræðin þeirra þegar við viljum vita meira.
  2. Það er ekkert skilyrði að vera mamma til hefja ljósmæðranám og hvað þá til að starfa sem ljósmóðir.  Það er ekki gerð krafa um að fólk hafi fengið hjartaáfall áður en það fer að starfa á bráðamóttöku við að sinna fólki sem kemur inn með hjartaáfall svo dæmi sé tekið. Vissulega getur verið að konur sem hafa gengið í gegn um barneignarferlið sjálfar hafi eitthvað fram að færa sem konur sem ekki hafa gengið í gegn um ferlið hafa ekki fram að færa. Það þykir hins vegar ekki faglegt að yfirfæra persónulega reynslu mikið yfir í starfið og því getur það verið kostur að hafa ekki þessu reynslu.
  3. Ég veit ekki hvort það kallast köllun eða eitthvað annað en það er nauðsynlegt að hafa brennandi áhuga á starfinu. Þetta er vissulega praktíst starf þ.e. það snýst um að hjálpa öðrum og það er auðvelt að fá vinnu hvar sem er á landinu og hvar sem er í heiminum. Verð þó að benda þér á að þú átt mun meiri atvinnumöguleika ef þú tekur hjúkrunarnámið líka.
  4. Það ætti að vera lítið mál að fá að hitta ljósmóður en kannski erfiðara að fá að fylgjast með störfum ljósmæðra. Þú ættir að hafa samband við sjúkrahús eða heilsugæslustöð í nágrenni við þig og e.t.v. færðu að koma í heimsókn.

Vona að þetta hafi svarað spurningum þínum.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. febrúar 2005.