Má 6 mánaða barndrekka sódavatn?

26.01.2007

Góðan daginn og takk kærlega fyrir frábæran vef.

Mig langaði til að vita hvort að 6 mánaða barn má drekka sódavatn. Þannig er mál með vexti að sjálf drekk ég rosalega mikið af sódavatni og sérstaklega Kristal Plús. Dóttir mín er 6 mánaða og vill að sjálfsögðu smakka allt sem ég læt upp í mig. Hún er mjög dugleg að borða krukkumat og grauta og drekka vatn úr stútkönnu og einstaka sinnum leyfi ég henni að fá sopa af sódavatninu. Er það í lagi? Í fyrsta lagi langar mig til að vita hvort að það hafi einhver áhrif á tennurnar (hefur kolsýran einhver áhrif á tennurnar). Og í öðru lagi er sódavatn allt í lagi fyrir svona litla óþroskaða maga?

Kveðja, Arna.

 


 


Komdu sæl, Arna!

Þar sem dóttir þín 6 mánaða er bæði dugleg að borða og drekka og dafnar vel, hefur hún ekki þörf fyrir að bæta sódavatni á matseðilinn sinn. Kolsýran í sódavatninu er talin stuðla að glerungseyðingu tanna, sem er algeng meðal unglinga í dag. Glerungurinn þekur tennurnar, herðir þær og ver þær gegn tannskemmdum. Nú fer að líða að tanntöku hjá dóttur þinni, ef hún er ekki þegar hafin, svo það er eitt af þínum hlutverkum sem móðir, að stuðla að góðri tannheilsu hjá henni og því rétt að sleppa því að venja hana á að drekka sódavatn. Það er eitthvað, sem þú getur stjórnað sjálf og njóttu þess að leggja grunn að hollu mataræði dóttur þinnar. Það stuðlar líka að góðu heilsufari og eðlilegu holdarfari. Að öðru leyti veit ég ekki til, að sódavatn sé skaðlegt.

Gangi ykkur vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. janúar 2007.

Sjá einnig umfjöllun í fyrirspurn 12. febrúar 2007.