Er skylt að mæta í mæðraeftirlit og fæða undir eftirliti ljósmóður?

12.10.2006

Ég veit að fáar konum ef einhverjar sleppa því að mæta í mæðraeftirlit en ég vildi vita hvað stendur um þetta í lögunum. Þarf kona að mæta í mæðraeftirlit á meðgöngu lagalega séð og þarf hún að fæða undir eftirliti ljósmóður? Ég veit að allar konur sem eru þungaðar þurfa að fara í blóðprufu og láta tékka á sýfillis. En fræðilega séð gæti kona ákveðið að fara í ekkert mæðraeftirlit og engar skoðanir aðrar en þessa blóðprufu og fætt heima hjá sér án ljósmóður án þess að vera að bjóta lög? Og ef það eru lög um þetta gætuð þið þá bent mér á þetta.


Mæðravernd og allar rannsóknir sem henni fylgja sem og fæðingarhjálp, eru tilboð til verðandi foreldra en ekki lögbundin skylda. Barnshafandi kona væri því ekki að brjóta lög með því að afþakka rannsóknir eða aðkomu heilbrigðisstarfsfólks að meðgöngu eða fæðingu. Hins vegar ef barnshafandikona stofnar heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu (t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu) varðar það Barnaverndarlög (m.a. 21. gr og 30 gr. 2002 nr. 80 10. maí), sjá nánar á http://www.althingi.is/lagas/132a/2002080.html

Barnshafandi konur eru hvattar til að þiggja mæðravernd og fæðingarhjálp hjá ljósmæðrum og/eða fæðingarlæknum þar sem það er talið auka líkur á góðri útkomu meðgöngu og fæðingu fyrir móður og barn.

yfirfarið 28.10.2015