Spurt og svarað

23. september 2006

Maísbaunaáferð í hægðum

Hæ, hæ kæru ljósmæður og takk fyrir frábæran vef sem hefur hjálpað mér mikið!

Strákurinn minn sem er mitt fyrsta barn, er tæplega 4ja mánaða og hann hefur verið með magakveisu. Í 3ja mánaða skoðuninni greindist hann með baklflæði. Hann er á Minifoam fyrir magakveisunni og á Gaviscon við bakflæðinu. Læknirinn mælti líka með nokkrum teskeiðum af maísgraut fyrir svefninn sem myndi stemma líka, einnig til að hann sé ekki að vakna á 2ja-3ja tíma fresti. Síðan hann byrjaði á Gaviscon þá hafa hægðirnar ekki verið eins blautar og áður og hann kúkar sjaldnar. Áðan var ég að skipta á honum í annað sinn síðan klukkan 6:00 í morgun og þá voru svona einskonar „baunir“, hálfglærar í bleyjunni með hinum gulbrúnu hægðunum. Ég tók pappír og kramdi eina baunina og hún var frekar hörð, eins og baun í rauninni.

Er þetta eðlilegt og á ég að halda áfram eða kaupa kannski Malt Extrakt eða Sorbitól fyrir hann?

Með fyrirfram þökk, ein forvitin.


Komdu sæl, mamma

Það er erfitt að segja til um, hvað er á seyði hjá ykkur. Hef ekki heyrt um svona lagað áður. Þessar glæru baunir í hægðunum hljóta þó að stafa af því,sem fer ofan í barnið. Þú nefnir að barnið fái Gaviscon og maísgraut. Byrjaði barnið á þessu hvoru tveggja á sama tíma?  Á vefsíðunni Doktor.is stendur m.a. að Gaviscon sé notað við bólgu í vélinda vegna uppflæðis á súru magainnihaldi. Þetta lýsir sér sem brjóstsviði, nábítur og verkir fyrir brjósti. Alúminíumoxíð er sýrubindandi efni. Algínsýra og natríumbíkarbónat mynda með saltsýru magans léttan og "hlaupkenndan massa" sem flýtur ofan á magainnihaldinu og hindrar uppflæði í vélindað. Ekki er vitað um neinar aukaverkanir af Gaviscon. Ég velti fyrir mér hvort glæru baunirnar geti verið hluti af þessum hlaupkennda massa, sem hefur ekki leyst upp á leiðinni í gegnum meltingarveginn og skilað sér svona. Ef svo er, ætti þetta að vera saklaust fyrirbæri.

Ég ráðlegg þér ekki að gefa barninu hægðalyf þegar það er ekki með hægðatregðu.

Hefurðu borið þetta undir fleira heilbrigðisstarfsfólk? Það sakar ekki að spyrja því eins og sagt er: Betur sjá augu en auga!

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.