Maísgrautur sem fyrsti grautur?

25.10.2007

Góðan dag.

Ég er farin að huga að því að gefa tæplega 6 mánaða dóttur minni að borða. Í ráðleggingum er ávallt talað um hrísgraut sem fyrsta graut þar sem hann er glútenlaus og bjóða síðar hafra- og bygg grauta. Hvergi er minnst orði á maísgrauta.  Nú eru til á markaðnum maísgrautar sem ekki innihalda glúten. Er eitthvað sem mælir gegn því að bjóða maísgraut sem fyrsta graut?
Ástæðan fyrir því að ég spyr er að þegar versla átti fyrsta hrisgrautinn þá var hann ekki til í minni heimabyggð en aftur á móti var til maísgrautur :0)

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Nei, það er ekkert sem mælir gegn því að bjóða maísgraut sem fyrsta graut ef hann er glútenlaus. Ástæðan fyrir því að mælt hefur verið með hrísgraut er vegna þess að hann er glútenlaus. Það er mikilvægt að byrja að gefa þunnan graut án kekkja og gefa sömu fæðutegund í nokkra daga til að gefa barninu tækifæri til að kynnast bragðinu. Á Íslandi hefur það verið venja að ráðleggja graut sem fyrstu fæðu en það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að bjóða grænmeti sem fyrstu fæðu. Þá er gott að gufusjóða grænmeti þar til það verður meyrt og stappa það saman við smjör eða olíu.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. október 2007.