Maltextraxt til að flýta fyrir hægðum

17.12.2006

Takk fyrir frábæran vef!

Langaði að spyrja um það hvort að óhætt sé að gefa syni mínum sem er þriggja mánaða brjóstamjólk á pela með maltextrakt útí til þess að flýta fyrir hægðum? Sonurinn er eingöngu á brjósti en staðan er þannig núna að allt að tólf dagar líða milli þess sem að hann hefur hægðir. Þegar hann loksins hefur hægðir þá eru þær mjúkar eins og á að vera hjá brjóstabörnum. Hins vegar er hann mjög pirraður í nokkra daga áður en hann loksins hefur hægðir. Þess vegna datt mér í hug að spyrja hvort að óhætt væri að gefa maltextrakt? Líkt og ég gerði með eldri son minn sem að fékk reyndar ábót af þurrmjólk.

Með kveðju, Epli.


Sæl og blessuð.

Það er í góðu lagi þótt langt sé á milli hægða brjóstabarna. Þeim er það mjög eðlilegt og það er frekar tákn um góða nýtingu þeirra á næringunni. Þetta er t.d. afar hentugt fyrir mæður sem eru með börnin berrössuð í klút á mjöðminni á sér. Þegar börnin fara svo að pirrast vita þær að nú er tíminn kominn. Börn á þurrmjólk geta hins vegar ekki melt hana til fullnustu og þeim er hættara við hægðatregðu. Ráð við því er t.d. maltextrakt. Börnum á brjósti þarf ekki og á ekki að gefa maltextrakt.

Með ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. desember 2006.