Meira um járnþörf ungbarna

20.03.2007

Sæl og takk fyrir góðan vef :)

Ég var að lesa fyrirspurn um járnþörf. Ég flutti með dóttur mína til Danmerkur þegar hún var 3 mánaða og kom því dönsk ljósmóðir alltaf heim til okkar í eftirlit.   Í Danmörku eiga börn að fá járndropa (og AD dropa eins og á Íslandi) fyrsta árið þrátt fyrir að þau séu eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuðina. Af hverju er þetta ekki gert á Íslandi?  Nú finnst mér svo skrítið að eiga barn hér á Íslandi og gefa barninu mínu ekki járndropa miðað við hversu mikilvægt þetta var fyrir þeim í Danmörku.


Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Nú veit ég ekki hvað vakir fyrir þeim í Danmörku.  Samkvæmt mínum heimildum inniheldur brjóstamjólk nægilegt járn fyrir börnin og þar að auki nýta þau járnið betur úr brjóstamjólkinni en eftir öðrum leiðum.  Kannski hefur þetta eitthvað með það að gera hversu margar mæður eru með börn sín á brjósti í Danmörku.  Ég veit ekki hversu hátt hlutfallið er þar en Ísland er mjög framarlega í þessu, þ.e. flestar mæður hér eru með börnin sín á brjósti fyrstu mánuðina.

Hinsvegar hefur komið í ljós í rannsóknum að börn upp að 2 ára eru ekki að fá nægilegt járn úr fæðunni (eftir að þau eru farin að borða venjulegan mat) og þess vegna er ráðlagt að gefa börnum stoðmjólk í stað nýmjólkur, hér á Íslandi, þar sem hún er járnbætt.  Kannski er þetta eitthvað sem Danir eru að reyna að fyrirbyggja með því að gefa börnum járndrora en við mælum með stoðmjólkinni í staðinn.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
20.03.2007.