Mikill eyrnamergur hjá 10 vikna

04.07.2006

Sælar og takk fyrir mjög góðan og fróðan vef.

Ég er í vandræðum með eyrun á litlunni minni. Mér finnst vera mikill mergur inn í eyranu og ég veit ekki alveg hvernig ég á að fara að því að þrífa hann. Ég er ekki hrifin af því að nota eyrnapinna nema fyrir utan eyrað ef eitthvað hefur skilað sér út. Hafið þið einhver ráð handa mér.

Ein ráðalaus.

 


 

Sæl!

Eyrnamerg í litlum börnum á alveg að láta í friði, nema það sem kemur út úr hlustinni og sést með berum augum, í eyrnagangsopinu, þar sem hlustin byrjar. Ef farið er að hreinsa með eyrnapinna er hætta á að mergnum verði ýtt lengra inn í hlustina þar sem hann getur safnast saman og þést og orðið að hörðum eyrnamergstappa, sem getur skert eða truflað heyrnina á meðan hann er þarna. Oftast þarf svo eyrnalækni til að ná honum þaðan aftur út. Eyrun eiga að vera sjálfhreinsandi og ekki er ástæða til að vera að hafa nokkrar áhyggjur af þeim, nema ef eitthvað kemur í ljós í ytra eyra, sem má þá þrífa með einhverju mjúku og deigu.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. júlí 2006.