Minifom dropar - bara við upphaf fyrstu gjafar - eða?

22.06.2008

Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðan vef :)

Ég er með eina 8 vikna sem ég var að byrja að gefa Minifom dropa því það er svo mikið loft í henni sem hún á erfitt með að losna við. Það stendur á umbúðunum að maður eigi að gefa dropana fyrir hverja gjöf. Ég gef henni þá áður en ég gef henni, síðan vill hún ekki meira að drekka og er ég þá í svolítinn tíma með hana, síðan vill hún aftur drekka stundum eftir 10 mín/20 mín/30 mín og jafnvel ekki fyrr en eftir klukkutíma aftur. Stundum legg ég á hana á brjóst þrisvar sinnum á innan við klukkutíma en alltaf líður svolítill tími á milli. Hvernig er það í þessu tilfelli, á ég að gefa henni þá í hvert skipti sem hún drekkur eða bara við upphaf fyrstu gjafar? Finnst hún ropa vel á eftir fyrstu gjöf, sem sagt þeirri gjöf sem ég gef dropana fyrir, en síðan eftir næstu gjafir á hún erfitt með ropa, það eru þær gjafir sem ég gef henni ekki dropana.Er svo hrædd um að vera að gefa henni of mikið ef ég gef henni dropana í hvert skipti sem hún drekkur því það er svo oft sem ég þarf að leggja hana á brjóst.

Með von um svar sem fyrst :)


Sælar!

Með Minifom dropana þá gefum við oftast bara í upphafi gjafa en ekki þegar það eru aukagjafir. Svo mér sýnist þú vera gera þetta allt rétt.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júní 2008.