Spurt og svarað

27. maí 2010

Mismunandi leiðbeiningar

Sælar!

Nú er ég búsett í Svíþjóð og eignaðist mitt annað barn fyrir nokkrum mánuðum. Ég hef tekið eftir því að þær ráðleggingar sem ég fæ í ungbarnaeftirlitinu hér eru oft mjög frábrugðnar ráðleggingunum sem ég fékk á Íslandi þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn árið 2006. Nú er ég forvitin að vita hvort það sé svona mikill munur á ráðleggingunum í þessum tveimur löndum eða hvort ráðleggingar á Íslandi hafi kannski breyst. Það sem ég er að velta fyrir mér er eftirfarandi: Svíar ráðlegga þykkan og mjúkan kodda í rúmið/vagninn hjá ungbörnum til þess að draga úr álagi á höfuðið og þar með minnka líkurnar á höfuðið verði flatt/skakt í kjölfar baklegu (börnin eiga jú að sofa á bakinu). Árið 2006 fékk ég þær ráðleggingar að alls ekki nota kodda fyrir ungbörn því það yki líkur á vöggudauða. Með fyrsta barnið fekk ég þær ráðleggingar á Íslandi að bíða með að gefa egg, fisk og aðra þekkta ofnæmisvalda þar til barnið væri orðið um 1 árs. Hér þykir engin ástæða til að bíða með þetta (ekki einu sinni hnetuvörur) jafnvel þó foreldrar hafi þekkt ofnæmi. Það eina sem er sagt að eigi að varast fyrsta árið er að salta aukalega og gefa hunang, sellerí og mjólk, jógúrt og annan mjólkurmat í miklu mæli. Hér fá líka foreldrar þær ráðleggingar þegar barnið er 4 mán að nú sé kominn tími til/eða megi fara að kynna mat fyrir barnið í smáum skömmtum. Hér eru því 5 mán börn mörg hver farin að borða grænmeti, kjöt, fisk, egg og annan "venjulegan" mat, þannig að mín tilfinning er að Svíar séu ekki alveg eins "varkárir" í matarmálum og Íslendingar. Ungbarnahjúkrunarfræðingurinn minn vildi heldur ekki meina að barnið þyrfti að hafa náð ákveðnum aldri eða þyngd áður en það færi út í vagn og hér er ekkert talað um að forðast fjölmenni fyrstu 12 vikurnar á meðan ónæmiskerfið er að ná ákv þroska (man ég fékk þær ráðleggingar á Íslandi). Væri gaman að heyra hvort þetta hefur e-ð breyst á Íslandi eða hvort það er bara svona mikill munur og þá í framhaldinu velta fyrir sér á hverju ráðleggingarnar eru byggðar??

Takk fyrir frábæran vef.

Kveðja

Erla


Sæl Erla.

Við ráðleggjum ekki kodda í rúm barna þar sem þau geta kafnað í honum. 

Við ráðleggjum enn að bíða með fisk og aðra ofnæmisvaldandi fæðu til eins árs ef ofnæmi er í fjölskyldunni.  Við ráðleggjum það sama með mjólkurvörur, þ.e að gefa ekki mikið af þeim fyrir eins árs þar sem börn eiga oft erfitt með að þola svo þungmelt prótein. 

Brjóstagjöf ef hér ráðlögð eingöngu til 6 mánaða eins og WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráðleggur.  Og áfram með öðrum mat eftir það. 

Það að fara út í vagn getur nú eitthvað haft að gera með veðurfar.  Á Íslandi hafa þær ráðleggingar verið í gildi á vetrum að bíða þar til barnið er 4 kg. eða 4 vikna en í góðu veðri á sumrin á það nú kannski ekki við.  Það eru líka ákveðnir siðir í hverju landi um að láta börn sofa úti í vagni og vissulega eru skiptar skoðanir um það á Íslandi.

Ráðleggingar um að forðast margmenni fyrstu 3 mánuðina eru enn í fullu gildi.

Landlæknisembættið gefur út handbók um ung og smábarnavernd sem farið er eftir hér.  Hún byggist á samantekt rannsókna, sem og erlendum leiðbeiningum.  Ísland er og hefur verið í fyrsta sæti vesturlanda með lægstan ungbarnadauða.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
27. maí 2010.

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.