Spurt og svarað

05. nóvember 2006

Mjólkurþörf miðað við þyngd o.fl.

Sælar ljósmæður!

Ég er í smá vanda stödd. Þannig er að ég er með rúmlega 4 mánaða gamlan strák sem hefur í rúman mánuð verið að drekka mjög illa. Brjóstagjöfin fór öll í vaskinn og ég byrjaði að gefa honum pela.  En það virðist líka ganga brösuglega því hann er að drekka 400 - 700 ml. á sólahring.  Málið er að þetta hófst allt saman þegar hann pissaði kannski 2. - 3. á sólarhring þá fór ég að fylgjast með því hvað hann væri að drekka.  Ég hef leitað til ungbarnaverndar en ég fæ engin svör þar annað en að það sé ekkert að honum, ég sé vandamálið.  Það sé of mikil spenna á milli mín og stráksins. En ég hef miklar áhyggjur þegar hann vaknar eftir 8 tíma svefn og drekkur 50 ml. og vill svo bara fara að sofa aftur.  Hjúkkan sagði mér að fara gefa honum graut til að plata upp í hann vökva, en drengurinn grætur bara og vill ekki sjá grautinn. Þá ráðlagði hún mér að byrja að gefa honum kartöflur. Ég hef mig ekki í að gefa rúmlega fjögurra mánaða gömlu barni svo þungan mat.  Málið er líka að hann þyngist ótrúlega vel, eiginlega of mikið og er því svolítið feitur og pattaralegur sem passar ekki við magn mjólkur sem hann drekkur. Hann var 7.500 gr. tæplega 4 mánaða. Það sem mig langar að vita hvort að það séu til einhver þumalputtaregla varðandi vökvaþörf miðað við þyngd. Hvað á hann að vera drekka mikið á sólarhring? Veit að það getur verið misjafnt milli barna.  Hann fær graut einu sinni á dag og þá kannski 8 - 15  skeiðar.

Mig langar að forvitnast hvað þessi orð þýða í skýrslunni minni:

 • CTG (MAFA 30) í dálknum aðgerð í fæðingu.
 • P 39.1 í dálknum greining V barn. Það hefur staðið heilbrigt hjá hinum börnunum mínum.

Að lokum: Hver er munurinn á prostaglandin og cytotec stílum?

Með kærri kveðju Lilja

 


Sælar!

Varðandi mjólkurþörf barna - þá ert þú með blað í ungbarnaverndar möppunni hans - blaðið um brjóstagjöf - aftan á því blaði eru töflur þar sem þú getur reiknað út hvað hann þarf mikinn vökva miðað við aldur og þyngd. Í rauninni þá á að vera nóg fyrir hann að fá bara þurrmjólk til 6 mánaða aldurs, ef hann er alveg hættur á brjósti. Meltingarfærin eru svo óþroskuð að ég myndi bíða með kartöflurnar fram yfir 6 mánaða líka. Það er líka mjög góð bók um matarræði ungbarna í möppunni hans og gott að fara eftir ráðleggingum í henni líka. Þar sem að hann þyngist svona vel þá er hann örugglega að fá næga mjólk, því börn sem fá ekki nóg þyngjast ekki vel.

Vonandi getur þú nýtt upplýsingarnar í ungbarnaverndar möppunni. 

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2006.

 

 • MAFA 30 þýðir að fylgst hafi verið með fósturhjartslætti í fæðingunni með sírita (mónitor) á einhverju stigi fæðingarinnar.
 • P 39.1 stendur fyrir Nýburatárubólga og -tárakirtilsbólga.
 • Cytotec er lyf sem inniheldur prostaglandín sem kallast Misoprostol.

  Kær kveðja,

  Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
  ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
  5. nóvember 2006.

 • Senda fyrirspurn
  Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
  Fyrirspurnin þín hefur verið send.
  Fannstu ekki svar?

  Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

  Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

  Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.