Mömmuskjóða

09.02.2005

Hæ, hæ og takk fyrir mjög góðan vef.

Ég er í algjörum vandræðum með rúmlega 3ja mánaða gamlan son minn. Málið er að ég byrjaði að fara í leikfimi þrisvar í viku fyrir um 3 vikum síðan og á meðan er hann hjá pabba sínum og hann hreinlega öskrar á pabba sinn allan tímann á meðan ég er í burtu. Nú er pabbi hans helling með hann og honum finnst það allt í lagi svo lengi sem ég er í íbúðinni en stuttu eftir að ég fer þá byrjar hann að öskra og hættir ekki fyrr en ég kem heim aftur. Hvað er eiginlega hægt að gera til að venja hann af þessu og er þetta eðlilegt? Ég gef honum sko að drekka áður en ég fer og er svo í burtu í ca 1 og ½ tíma þannig að það er ekkert að honum nema það að hann vilji fá mig enda hættir hann að grenja um leið og ég kem heim. Ég hélt hann myndi hætta þessu þegar ég væri búin að fara í nokkur skipti en hann virðist ekkert vera að skána, mér finnst þetta svo hrikalega leiðinlegt og sérstaklega fyrir pabba hans.

.......................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Okkur barst ekki fyrir löngu sambærileg fyrirspurn um Mannafælni og vil ég benda þér á að lesa hana því svarið við þinni fyrirspurn yrði í sama dúr. Í þínu tilfelli er hins vegar um pabbann að ræða, sem býr á heimili barnsins.

Það er jákvætt og ætti að hjálpa barninu að tengjast og venjast honum fyrr, en þú ert greinilega meira með barninu og auk þess ertu líklega einnig með barnið á brjósti, sem tengir ykkur enn fastari böndum. Strákurinn mun áreiðanlega þýðast pabba sinn og hætta að öskra á hann en það tekur bara tíma. Hversu langan er erfitt að segja til um. Held þú hafir gott af því að gera eitthvað fyrir sjálfa þig eins og að fara í leikfimi og vil ég hvetja þig til að halda því áfram. Auðvitað er það leiðinlegt þegar barnið öskrar á pabba sinn en hann er bara skynugur strákur og er að tjá sig með þessari hegðun. Þú ert meira með honum og hann þekkir þig betur og er tengdari þér sem á líklega eftir að breytast sérstaklega ef pabbi hans fer að vera meira með honum. Ég tel þetta ekki óeðlilega hegðun hjá drengnum. Þolinmæði, ást og umhyggja er allt sem þarf.

Gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
9. febrúar 2005
.