Spurt og svarað

08. maí 2006

Nutramigen og barnaexem

Ég á sex mánaða gamlan dreng. Hann er enn á brjósti (4-5 sinnum á sólarhring) en þegar hann var rúmlega fjögurra mánaða gamall fór hann að fá smá graut. Stuttu eftir það komu í ljós exemblettir, reyndar á hann eldri bróðir með exem svo ég bjóst alveg við þessu. Það sem mig langar að vita er það að nú gef ég honum svona þurrmjólkurblöndu út í grænmetisstöppur eða grauta, eða þegar þarf að fá mjólk útí, þar sem ég get eiginlega ekki fengið svo mikið sjálf úr brjóstinu til að setja í matinn. Ég fór bara allt í einu að spá hvort það myndi kannski breyta einhverju ef ég hætti að gefa honum venjulega þurrmjólkurblöndu og gæfi honum Nutramigen í staðinn og passaði líka öll mjólkurprótein í mat sem hann fær, hvort það myndi einhverju breyta fyrir hann í framtíðinni? Það hefur enginn bent mér á að gera þetta, hvorki ljósmóðir né læknir, en svo var ég að lesa um þetta að þetta gæti komið í veg fyrir að barn fengi ofnæmi fyrir mjólkurvörum eða yrði viðkvæmt fyrir vissum matvörum. Svo er ég með mikinn móral yfir því að hafa gefið honum graut þarna fjögurra mánaða því ég er farin að sannfæra sjálfa mig um að ég hafi gefið honum exemið með þessu. Hefði það ekki komið hvort sem var þó hann hefði fengið grautinn seinna? Ég meina þetta er greinilega í ættinni.

Aðalspurningin er samt á ég að gefa honum Nutramigen fram að 1 árs eða bara nota venjulega þurrmjólkurblöndu út á mat?


Sælar! Það er þetta með exem ef það er fyrir í fjölskyldunni, þá er erfitt að koma í veg fyrir það hjá litlu börnunum. Aðallega er talað um að ef börnin eru sem mest og lengst á brjósti að þá verði einkennin minni. Ég verð að segja alveg eins og er ég veit ekkert um þetta Nutramigen - ég held að það sé best hjá þér að ræða við ofnæmislækninn hans - því þeir vita um öll þessi atriði. Það er mikið skrifað um fæðuofnæmi á vef GlaxoSmithKline en þetta er fyrirtæki sem flytur Nutramigen inn - þannig að ég tel best að ráðfæra sig við ofnæmislækninn.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.