Spurt og svarað

29. september 2006

Nýburinn og verslunarleiðangrar

Hvenær er í lagi að fara út í búð, verslanir eða kringluna með barnið?  Ég á ekki svona bílstól sem er hægt að bera inn og út úr bílnum! Svo ég væri bara með krílið í svona babybjorn burðarpoka sem maður er með framan á sér!

 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Fyrstu 12 vikurnar í lífi barnsins er ónæmiskerfið óþroskað og ekki tilbúið til að takast á við sýkingar sem það getur smitast af þegar farið er með það í fjölmenni.  Þetta er krítískur tími fyrir barnið því ef það veikist á þessum tíma getur það orðið alvarlega veikt.  Sýkingar sem eru einfaldar hjá eldri börnum og fullorðnum, eins og kvef, geta breiðst út um líkama svona ungra barna og valdið útbreiddum sýkingum.  Eftir þriggja mánaða aldur er barnið betur í stakk búið til að takast á við veikindi.
Með móðurmjólkinni fær barnið mótefni gegn sýkingum sem mamman hefur myndað en ef mamman smitast ekki þá hefur hún ekki þessi ákveðnu mótefni í líkama sínum þannig að móðurmjólkin veitir ekki 100% vörn gegn sýkingum.  Lítið barn vekur oftast mikla athygli og ókunnugt fólk stoppar gjarnan til að spjalla við mömmuna og kemur þá kannski aðeins við barnið í leiðinni.  Þetta fólk meinar vel en því miður er þetta líka smitleið.
Það er auðvitað matsatriði hvenær börn eru tilbúin að fara í stórar verslanir eða verslunarmiðstöðvar því það eru ekki bara sýkingar sem þarf að varast heldur getur hávaði og mikið áreiti virkað illa á börn þannig að þeim líður illa og gráta mikið.
Til að byrja með gæti verið gott að velja rólegan tíma eins og á morgnanna og vera stutt í einu í þessum verslunarleiðöngrum.  Hvort barnið er í stól, vagni eða burðarpoka skiptir ekki máli gagnvart sýkingum þar sem sýklarnir geta borist með andrúmsloftinu en barnið gæti verið rólegra í burðarpoka hjá mömmu sinni heldur en í stól. 
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
29.09.2006
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.