Olían í AD-dropum o.fl.

08.04.2007

Komið þið sæl og takk fyrir góðan vef.

Mig langaði að spyrja meira út í járn fyrir ungabörn.  Nú tek ég alltaf lýsi á hverjum degi og barnið mitt er eingöngu á brjósti.  Það er 6 vikna. Ljósmóðirin mín mælir samt með því að það taki AD dropa á hverjum degi. Hversu mikið járn eru börnin að fá úr brjóstamjólkinni og breytist það eitthvað ef móðirin tekur lýsi? Er það nauðsynlegt að gefa AD dropana? Svo var ég spurð, eða eiginlega sagt við mig, að hnetuofnæmi væri ávalt að aukast meðal ungra barna.  AD droparnir eru unnir úr kókosolíu og kókosinn er auðvitað hneta, og þá var spurningin til mín þannig, geta þessir dropar verið þess valdandi að ofnæmistíðni hnetuofnæmis sé að hækka.  Og auðvitað gat ég ekki svarað þessari spurningu svo að ég sendi hana áfram.

Með bestu kveðju, Kristín.


Sæl Kristín og takk fyrir að leita til okkar.

D-vítamín er eina næringarefnið sem ekki er í nægilegu magni fyrir ungbarnið í móðurmjólk fyrstu 6 mánuðina eftir fæðingu. Þar við bætist að fáar fæðutegundir innihalda D-vítamín og því eykst hætta á skorti eftir að barnið fer að fá fasta fæðu frá 6 mánaða aldri.  Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að ekki sé nægjanlegt magn af D-vítamíni í brjóstamjólk þó svo að móðir taki lýsi á meðan hún hefur barn á brjósti. Því er ráðlagt að gefa AD-vítamín dropa til að tryggja barninu nægilegt D-vítamín. A-vítamínið í AD- vítamín dropunum er þar eingöngu til að gulltryggja að barnið fái nægilegt magn af þessu mikilvæga næringarefni. Það næringarefni sem helst skortir í móðurmjólk er járn. Járnbirgðir í heilbrigðum nýburum við fæðingu dugar þeim aftur á móti allt til átta mánaða aldurs.  Sjálfsagt er að gefa þeim járnríkt fæði eftir það. Talað er um að ungbörn nýti 60% af því  járni sem það fær með brjóstamjólkinni og skiptir engu hvort móðir tekur lýsi eða ekki. Inntaka á lýsi hefur ekki með járn að gera að neinu leyti.  Hins vegar er D-vítamín nauðsynlegt til að kalk nýtist úr fæðunni og komist í beinin.  Fyrstu ár ævinnar eru beinin að vaxa og þéttast og því skiptir miklu máli að ung börn fái bæði nægilegt kalk og D-vítamín.  Kalkið fá þau úr mjólkinni en D-vítamín er það í minna magni og því þarf að gefa það sérstaklega eins og áður hefur komið fram. 

Kókosolían sem notuð er í AD-vítamínið er hreinsuð kókosolía.  Rannsóknir hafa sýnt fram á það að hún sé ekki ofnæmisvaldur og algjörlega óhætt að gefa ungum börnum hana.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel!!

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. apríl 2007.