Spurt og svarað

03. febrúar 2007

Óvær á kvöldin

Góðan daginn, ég á 3 mánaða gamlan son sem fram að 2 mánaða aldri var algjör engill og þurfti varla að hafa fyrir honum.  En fyrir tæplega mánuði fór það að breytast, honum líður alltaf vel allan daginn en svo þegar kvölda tekur verður hann alltaf brjálaður þegar hann verður þreyttur og það er eins og hann geti ekki sofnað nema ég hossi honum og labba með hann og vagga honum í 15-120 mín!   Ég fór að venja hann á að sofa úti í vagninum á daginn á svipuðum tíma, getur verið að það hafi þessi áhrif? Hann sefur núna 10-11 tíma á nóttunni, vaknar 1-2 á nóttunni til að drekka og sofnar strax aftur.  Hann sefur í rúmlega 2 tímaí vagninum á daginn, vakir í klukkutíma, sefur aftur í vagninum í 2 tíma og er aftur orðinn þreyttur eftir ca. klukkutíma og þá byrjar oftast pirringurinn.  Oftast endar það með því að hann tekur 2 stutta dúra um kvöldið (20-30 mín).  Ég er alltaf svo hrædd um líka að hann sé svangur því maður er alltaf að heyra að börn taki vaxtarkipp um 3 mánaða og fari að drekka meira, en hann er farinn að drekka miklu minna.  Hann brjálast líka alltaf um leið og ég sest eða leggst niður með hann (eiginlega bara á kvöldin samt) og þegar hann er svona brjálaður getur hann aldrei drukkið.  Stundum þarf ég að "plata" hann með snuðinu, það er ná að róa hann smá með snuðinu og kippa því út og bjóða honum geirvörtuna strax, þá drekkur hann alveg fullt...en ég næ samt ekki alltaf að róa hann þegar ég er sitjandi því stundum er hann svo brjálaður að hann tekur ekki einu sinni snuðið.  Ég er búin að reyna miniform dropa en þeir virkuðu ekkert þannig að það er ekki það.  Ég er líka búin að reyna að leggja hann í vagninn inni á kvöldin en það virkar ekki einu sinni alltaf.
Er þetta eðlilegt eða ætli sé eitthvað að hrjá hann og þá bara á kvöldin?

Með fyrirfram þökk!


Komdu sæl.

Ég get því miður ómögulega svarað því hvort eitthvað er að hjá honum.  það getur læknisskoðun staðfest, ert þú búin að fara með hann í 3ja mánaða skoðun?  Þá er læknisskoðun og upplagt að tala um þetta við hjúkrunarfræðinginn og lækninn þá ef þú ert ekki búin að fara.  Annars ert þú kannski búin að fá svör um það hvort eittvað er að eins og t.d. í eyrunum.  Mörg börn fá magakveisu sem er venjulega verst á kvöldin, það er ekkert hægt að gera í henni nema þrauka, því það er tímabundið ástand en getur verið mjög erfitt á meðan það varir.  Eftir lýsingu þinni að dæma eru þetta óværðarköst sem eru bara á kvöldin en svo sefur hann vel á nóttunni og á daginn.  Þú talar ekkert um það hvernig hann dafnar en ef hann þyngist og þroskast eðlilega þá er ekki víst að hann sé svangur á kvöldin í þessum köstum sínum heldur líður honum kannski illa og kannski þarf hann bara að gráta.  Sum börn virðast tappa af sér erli dagsins með því að gráta á kvöldin án þess að nokkur sýnileg ástæða sé fyrir því af hverju þau gráta.  Ég mundi samt ráðleggja þér að leita til ungbarnaverndarinnar og fá læknisskoðun til að vera viss um að ekkert sé að.  Svo er nauðsynlegt fyrir ykkur foreldrana að skiptast á um að hugsa um hann því það er mjög erfitt fyrir þig að standa í þessu öll kvöld og hafa það á tilfinningunni að það sé ekkert sem þú getur gert fyrir hann.  Mundu bara að þetta gengur yfir.

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Raagnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
03.02.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.