Spurt og svarað

24. ágúst 2005

Óþekktarangi

Sælar og takk fyrir góðan vef
Ég er í algjörum vandræðum með drenginn minn sem er að verða 1 árs. Það eru eiginlega 3 atriði sem mig langar að byrja að telja upp.
1. Hann hefur alltaf verið orkumikill en upp á síðkastið hefur hann verið að færa sig ansi mikið upp á skaftið. Hann gargar þegar hann er ósáttur... þá meina ég garga ekki grenja og tekur allskyns frekjutakta. Ef ég fer með hann í búð þá á hann það til að garga og láta öllum illum látum þannig að fólk horfir á mig. Stundum gargar þar til hann verður hás. Hann meira að segja hefur vit á því að klípa mig og meiða og hann veit alveg að hann er að gera eitthvað sem hann má ekki.
2. Nú er hann líka farinn að taka upp á því að neita að sofna hjá mér á kvöldin. Hann hefur sofnað þannig að hann fær pela í fanginu á mér og sofnar yfirleitt strax eftir pelann. Nú er hann að streytast við í uppundir klukkutíma og svitnar mikið eins og honum líði illa og grætur... bara vill einfaldlega ekki sofna þó svo hann sé dauðþreyttur.
3.Þegar við sækjum hann úr pössun vill hann stundum ekki sjá okkur þegar við komum að sækja hann (ég og pabbi hans) og vill bara vera hjá afa sínum (er í pössun hjá systur minni sem býr hjá foreldrum okkar).  Mér finnst þetta allt saman alveg ofsalega leiðinlegt og fæ alveg tár í augun bara við að skrifa þetta. Við báðir foreldrar hans erum mjög ljúf og hann fær mikla athygli. Við höfum reynt eftir bestu getu að sýna honum hvað má og hvað ekki með því að segja ó ó og má ekki og erum alveg stíf á þeim hlutum. Stundum finnst mér hann bara eitthvað svo ósáttur þrátt fyrir að við reynum að ala hann upp við temmilegan aga. Við leikum mikið við hann og sýnum honum mikla ástúð og hlýju. Mér finnst hann heldur ungur til að vera með svona óþekkt og svona óviðráðanlegur... meðan önnur börn á hans aldri virðast sitja kyrr í kerrunum sínum þá er hann sveittur af gráti og prirring vill bara láta halda á sér.  Mér finnst eins og ég sé óhæf móðir við að skrifa þetta innlegg en ég vona eftir svörum um hvort þið haldið að það sé eitthvað að plaga hann eða hvort þetta sé einfaldlega eðlilegt. Getur ofvirkni greinst í svona ungum börnum?

...........................................

Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn

Það er leitt að heyra, að ykkur virðist ekki líða nógu vel í uppeldishlutverkinu en það er einmitt árangursríkast að taka á því strax.  Það ber vott um sjálfsbjargarviðleitni, þegar fólk leitar sér hjálpar og hefur ekki reynst þér auðvelt eins og þú lýsir. Þú tekur þetta greinilega nærri þér en þú átt heiður skilinn fyrir framtakið.  Þetta geta verið alveg eðlileg viðbrögð hjá drengnum tengt þroska og
aðstæðum. Mér sýnist þið vera eitthvað óörugg með, hvernig á að bregðast við svona hegðun, sem aftur veldur óöryggi og e.t.v. vanlíðan hjá drengnum. Uppeldi barns er eitt stærsta þroskaverkefnið, sem foreldrar ganga í gegnum og er nauðsynlegt að kunna grundvallaratriðin þar að lútandi. Ást og umhyggja ásamt jákvæðum aga og því að setja börnum mörk spila þar stórt hlutverk. Foreldrar þurfa líka að vera samkvæmir sjálfum sér og samtaka, þegar kemur að uppeldinu. Árangursríkt reynist að hrósa barninu fyrir jákvæða hegðun því að styrkir hana og eykur líkur á, að barnið endurtaki hana. Skýr ég-skilaboð til barnsins eru einnig mikilvæg s.s. "ég  vil ekki að þú gerir þetta eða hitt", og ekki ávíta barnið sjálft eða persónu þess (er meiðandi fyrir barnið), heldur eingöngu hegðun þess s.s. "það er ekki fallegt að klípa mömmu, það finnst mömmu óþægilegt". Svona mál þarf að skoða í heild sinni og ómögulegt að gera það á þessum vettvangi. Þið getið byrjað á því að leita ráða hjá heilsugæslunni, heimilislækni og/eða hjúkrunarfræðingi, þau þekkja ykkur e.t.v. best. Síðan eru til ýmsar aðrar leiðir.
Það eru til mýmargar uppeldisbækur bæði á íslensku og erlendu máli, sem hægt
er að afla sér fróðleiks úr. Síðan hefur heilsugæslan boðið upp á foreldranámskeið um uppeldi barna, sem er tiltölulega nýtt af nálinni.  Einnig er hægt að leita til uppeldis- og sálfræðinga eða fara á námskeið hjá þeim.

Það getur líka verið fróðlegt og skemmtilegt fyrir ykkur að lesa hér á síðunni "Það sem ekkert barn getur fært í orð" eftir Halldór Hansen barnalækni.

Með von um, að þið eigið eftir að njóta uppeldisins og þess að vera fjölskylda,

Gangi ykkur vel!
Kveðja

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24.08.2004.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.