Spurt og svarað

07. ágúst 2006

Pössun

Takk fyrir frábæran vef!! Mjög mikill fróðleikur sem hefur komið sér vel.

Ég á 15 vikna strák og hann er eingöngu á brjósti. Ég þarf að senda hann í pössun til ömmu sinnar eina kvöldstund og mig vantar svör við nokkrum spurningum.
1. Ég ætla að mjólka mig en er að spá hvernig best sé að gefa honum mjólkina. Er einhver hætta á að hann hætti að vilja brjóstið ef honum er gefin mjólkin í pela? Hann fékk sogvillu þegar hann var 5 vikna en það lagaðist og brjóstagjöf gengið vel síðan.
2. Í hve marga daga geymist brjóstamjólk í ísskáp og má ég blanda saman mjólk ef ég mjólka mig í 2 daga fyrir pössun?
3. Hvernig er best að taka á mannafælni? Hann grætur þegar hann sér ný andlit og einnig ömmu sína. Á ég að skilja hann eftir hjá henni eða venja hann smátt og smátt við með heimsóknum. Er ekki betra að hann sé passaður heima hjá sér frekar en heima hjá ömmu sinni.

Með fyrirfram þökk!
Sæl og blessuð.
Ég mæli með því að þú látir gefa honum pössunarmjólkina úr pela. Það er afskaplega lítil hætta á sogvillu hjá svo gömlu barni. Það er allt annað að tala um 5 vikna eða yngra.
Brjóstamjólk geymist 8 daga í ísskáp. Þú mátt blanda saman mjólk úr 2 mjólkunum en ekki fleirum. Það getur verið hentugt að geyma mjólk kælda eða frysta í litlum skömmtum. Þá er hitaður bara lítill skammtur í einu handa barninu. Ef það þarf meira má hita annan skammt en ef það er satt þá er hin mjólkin enn kæld og fín.
Ég er auðvitað enginn sérfræðingur í mannafælni en af innsæi myndi ég ráðleggja þér að fara í miklu fleiri heimsóknir með barnið og láta það í pössun heima hjá ömmu sinni frekar en hjá þér.
Vona að þetta hjálpi.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.