Spurt og svarað

24. júní 2005

Rangeygð, 4 mánaða

Sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef!

Ég hef miklar áhyggjur af dóttur minni sem er 4 mánaða. Hún er frekar rangeygð og virðist ekki ná að stilla augun sín rétt þegar hún horfir á hluti. Þetta er eiginlega viðvarandi þó hún nái einstaka sinnum að rétta sig af. Er eðlilegt að barn á þessum aldri hafi ekki betri stjórn á augunum en þetta eða þarf ég að láta athuga þetta eitthvað nánar? Er eitthvað gert í þessu hjá svo ungum börnum? Ég held að það sé svolítið um þetta í fjölskyldunni minni, m.a. þurfti amma barnsins að láta laga þetta hjá sér.

Kærar þakkir, áhyggjufull móðir.

.......................................................................


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Eitt af því sem margir foreldrar hafa áhyggjur af eru einmitt augu barna sinna. Hjá þessum litlu krílum þroskast hæfileikinn smá saman til að stjórna augnhreyfingunum. Barnið festir augun í stutta stund en missir fljótlega sjónir af því sem það er að horfa á. Þegar sjónin þroskast getur barnið farið að stjórna augnhreyfingum sínum af meiri nákvæmni. Ef bæði augun vísa ekki fullkomlega í sömu átt er barnið rangeygt. Algengt er að börn séu eitthvað rangeyg á fyrstu vikum ævi sinnar. Oftast er um smá truflun að ræða á samhæfingu milli augnvöðvanna sex sem hreyfa hvort auga og er það ekki til að hafa áhyggjur af. Hins vegar ef barn eru mjög rangeygt eftir að þriggja mánaða aldrinum er náð er æskilegt að fá góða læknisskoðun.

Í þínu tilviki ráðlegg ég þér að fá góða læknisskoðun fyrir litlu dóttur þína. Því ástæða er fyrir þig til að láta fylgjast með framvindunni. Yfirleitt eru börn send til nánari skoðunar hjá augnlækni eftir 6 mánaða aldurinn. Nauðsynlegt er að greina þetta snemma svo hægt sé að þjálfa verra augað upp, yfirleitt er það gert með því að hafa lepp fyrir betra auganu og þar með er barnið neytt til að nota augað sem það hefur ekki fulla stjórn á. Hjá eldri börnum geta þau þurft að nota gleraugu. Stundum þarf að gera augnaðgerð þar sem stytt er eða lengt í augnvöðvunum, en ef þetta uppgötvast snemma og meðferð hefst fljótlega aukast líkurnar á að augað jafni sig.
Vonandi svarar þetta fyrirspurn þinni og gangi ykkur vel.

Kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.