Spurt og svarað

09. desember 2005

Ráðalaus og ofurþreytt með einn þriggja mánaða

Sælar!

Ég á strák sem varð þriggja mánaða 23. nóvember. Hann hefur frá 3vikna aldri verið mjög óvær á daginn. Greindur með „colic“, held ég að það sé kallað. Sagt að hann mundi lagast 3 mánaða en það hefur ekki gerst (2barnalæknar hafa skoðað hann). Hann hefur verið á brjósti frá upphafi. Það hafa þó alltaf verið svolítil læti í honum á brjóstinu og það hefur versnað með aldrinum. Svo ég reyni að draga þetta saman þá gef ég honum brjóst svona 7 sinnum á sólahring, gjafirnar ganga misvel, en eru svona 5-20 mínútur hver. Hann smellir á brjóstinu gleypir loft, svitnar við gjafir, mjólk lekur út úr honum á meðan á gjöf stendur, rekur við, grenjar oft fyrir gjöf, á meðan og eftir, hefur átt erfitt með hægðalosun frá upphafi,ælir oft en þó mismikið (skiptir ekki máli þó ég hefi hann alveg í ró eftir gjafir) bæði lekur út úr honum og spýtist. Ég hef reynt ýmislegt til að laga gjafirnar, t.d. talað við ráðgjafa. Hann hefur þyngst hægt frá 2 mánaða, nú síðast 110 grömm á 2 vikum. Í 3 mánaða skoðun var mér sagt að gefa honum pela (1pela á dag eftir brjóst) með og ég hef reynt það nú í viku, en hann gleypir loft þegar hann drekkur pelann. Honum hefur ekki liðið vel þessa viku og ælt mun meira en venjulega (hætti að gefa honum Minifom 3 mánaða). Ég er ráðalaus. Hann hefur alltaf sofið vel á næturnar og fyrir þessa pelagjöf svaf hann í raun betur. Ég gef honum um miðnætti og hann vaknar milli 5 og 7. Svo er hann glaður og kátur þegar honum er ekki illt í maganum, bleytir 6 bleyjur á dag og er duglegur að hreyfa sig. Hann fæddist 3485 grömm og 50 cm er núna 5560 grömm og 62cm. Hversu miklar áhyggjur a ég að hafa? Ég er alveg ráðalaus. Er ekki mjög hlynnt pelanum en brjóstagjöfin gengur nú frekar illa þó mér finnist ég hafa nóga mjólk, hef drukkið camillu te og fennel te, finnst það virka nokkuð vel. Drengurinn hefur tekið snuð frá 2 vikna (gerð Bibi með kúlu á enda), hann er ekki mikið með það en huggar sig við það.

Nú er ég  hætt og vona að þú getir leiðbeint mér eitthvað!

Kveðja, Arnrún ofurþreytta.

....................................................................... 

Sæl og blessuð Arnrún.

Þú virðist nú bæði vera ofurþreytt og ofurdugleg. Það er mikil vinna að annast kröfuhart barn en gott að þú færð góðar nætur. Það er ekki auðvelt að greina hvað er að svona skriflega að það getur vel tengst brjóstagjöfinni að einhverju leyti. Þú byrjar náttúrulega á að taka út þennan pela sem þér finnst ekki gera barninu þínu neitt gott. Það er trúlega enn aukið álag á meltingarfæri sem virðast viðkvæm fyrir. Svo snýrðu þér að aðalatriðinu sem er að reyna að laga gjafirnar. Það þarf að vera alveg víst að þú sért ekki í offramleiðslu mjólkur. Það þýðir að þú mátt ekkert mjólka aukalega úr brjóstunum og það má ekkert leka úr þeim milli gjafa eða í gjöf (nota dyrabjölluaðferðina). Svo þarf að vera tryggt að barnið fái aðeins eitt brjóst í gjöf svo hann sé örugglega ekki að fá of mikla formjólk. Í gjöfinni þarft þú að geta stjórnað mjólkurflæðinu til hans svo það sé ekki of hratt. Þá hættir hann að smella og leka mjólk. Það er líka mikið atriði að vartan sé langt upp í munninum og að hann sé í góðri stellingu og fái góðan stuðning við kroppinn. Trúlega þarf hann samt að vera svolítið í kút.

Að lokum er nauðsynlegt að láta hann ropa snemma (eftir 1-2 mínútur) og jafnvel aftur eftir svona 10 mínútur. Eftir gjafir heldurðu honum svo lóðréttum í 10-30 mínútur. Ekki hafa áhyggjur þótt hann gubbi eitthvað. Það verður trúlega áfram þótt vonandi dragi eitthvað úr því. Þú sérð að það er fullt sem þú getur gert til að laga ástandið og engin ásæða til að örvænta. Ef þú þarft hjálp þá leitarðu eftir henni. Ef þér gengur vel að laga þetta allt fer hann að þyngjast betur mjög fljótlega.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. desember 2005.

 





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.