Spurt og svarað

22. janúar 2006

Rembingur hjá 11 vikna

Sælar!

Strákurinn minn er 11 vikna og er rosalega góður og þyngist mjög vel. Það sem hins vegar er að trufla hann og sérstaklega seinnipart nætur er mikill rembingur sem hefur verið að aukast undanfarið. Hann virðist vera fullur af lofti eða eins og hann fái verkjapílur í magann og engist þá um. Hann vaknar þó yfirleitt ekki við þetta (ég hins vegar sef ekki) og ef það gerist er hann bara sæll og glaður svo hann virðist ekki vera mikið kvalinn. Ég gef honum yfirleitt 8 sinnum á sólarhring og reyni að hafa gjafirnar langar, reyni að láta hann ropa í upphafi gjafar og í lokin og hann fær bara eitt brjóst í gjöf. Hann er stundum pirraður á brjósti, eins og hann fái verkjapílur í magann og er þá mikið að sperra sig. Kemur líka þó ég liggi (gef honum yfirleitt alltaf svoleiðis) og hægi á flæðinu með því að klípa fyrir aftan vörtubauginn (hélt fyrst að þessi pirringur væri vegna of hraðs losunarviðbragðs). En það sem ég er að velta fyrir mér er af hverju hann rembist svona mikið. Getur verið að hann sé bara svona fullur af lofti þó svo að hann ropi vel í og eftir gjafir? Eða er einhver ástæða til að halda að um mjólkuróþol sé að ræða? Mér var ráðlagt af heilsugæslunni að prófa að sleppa mjólkurvörum. Væri hann þá ekki meira óvær eða getur það líst sér svona? Eftir að hann byrjaði að láta svona á nóttunni (búið að vera í tvær vikur) hefur hann mun sjaldan hægðir en áður. Núna líða dagar á milli en áður mörgum sinnum á dag.Byrjuðum að gefa honum Miniform dropana þegar hann var 6 vikna, fannst til að byrja með að þeir hjálpuðu mikið (þ.e.a.s fannst auðveldara að láta hann ropa) en er ekki viss lengur. Getur verið að hann þoli þá illa?

Kveðja, Kristín.

.........................................................

Komdu sæl, Kristín!

Mér virðist sem þessi rembingur í drengnum trufli þig meira en hann þar sem hann vaknar ekki einu sinni við þetta og er bara sæll og glaður ef hann vaknar. Held þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af þessu. Það er rétt að börn hegða sér oft svona ef  loft er í meltingarveginum, sem þú ert að reyna að hjálpa honum að losa sig við. Það er mjög jákvætt, að drengurinn skuli vera eingöngu á brjósti og þyngist mjög vel. Yfirleitt þarf ekki að hafa áhyggjur af hægðum barna, sem eru eingöngu á brjósti því hægðatregða er nánast óþekkt fyrirbæri hjá þeim. Tíðni hægðalosunar breytist oft um sex vikna aldur í þá átt, sem hefur gerst með son þinn þ.e. hægðirnar koma sjaldnar en áður og er það alveg eðlilegt. Svo framarlega sem hægðirnar eru mjúkar og barnið losar sig við þær án óþæginda þarftu ekki að hafa áhyggjur.  Varðandi Miniform dropana ætti þér að vera óhætt að prófa að sleppa þeim og sjá, hvað gerist við það. Það mætti e.t.v. byrja á að sleppa þeim í annað hvert skipti eða gefa þá tvisvar á dag til dæmis. Þér er óhætt að prófa þig áfram með það. Svo er líka hægt að láta drenginn liggja á maganum öðru hvoru, þegar hann er vakandi og þú ert hjá honum og leyfa honum að puða þar við að lyfta höfðinu. Það hefur jákvæð áhrif á meltinguna og hjálpar honum e.t.v. að losna við loft annað hvort upp eða niður. Mín reynsla er sú, að börn með mjólkur-eða laktósuóþol séu mun óværari en þú ert að lýsa hér, en ræddu þetta endilega við hjúkrunarfræðinginn og/eða lækninn í ungbarnaverndinni þinni.

Gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. janúar 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.