Spurt og svarað

07. ágúst 2006

Reyrð börn og brjóstagjöf

Sælar!
Þannig er mál með vexti að strákurinn minn sem er 11 vikna núna er búinn að vera með rosalega magakveisu frá 2 vikna aldri. Ég veit ekki hvort að það tengist því eitthvað að þegar hann sefur eru hendurnar á honum út um allt í vöggunni og hann hendist til og frá. Þá tók ég upp á því eitt kvöldið að reyra hann vel, þannig að hendurnar eru eiginlega fastar meðfram síðu hans og hann svaf svona líka vel um nóttina. Undanfarið hefur hann sofið svona með hendurnar og líka þegar hann sefur á daginn (sem eru samt bara 2 tímar). En það sem ég er að spyrja um er það hvort það sé vont að reyra hann svona allar nætur, þar sem hann getur ekkert hreyft hendurnar? Og ef það er ekki sniðug hugmynd hafið þið einhverjar hugmyndir hvað er hægt að gera?
Annað sem ég vil spyrja um er að ég er með rosalega mikla mjólk og hann mjög ákafur að sjúga. Hann ælir svo mikið að ég er farin að minnka gjöfina um nokkrar mínútur og gef honum bara 3 til 4 mínútur með ropum inn á milli. Á ég að leyfa honum bara að ráða sjálfum hvað hann drekkur mikið þó svo að honum virðist líða verr af því eða á ég að stjórna þessu svona? Getur kannski verið að hann sé bara að fá formjók og ef svo er á ég þá að pumpa aðeins framanaf áður en ég gef honum?

Ein ringluð
Sæl og blessuð "ein ringluð".
Það er aldagömul aðferð að reyra börn og flestir foreldrar vita að litlum börnum finnst gott að láta halda þétt um sig. Þú hefur ábyggilega séð myndir af grænlenskum börnum og afrískum sem eru reyrð upp við foreldra sína. Það er hins vegar einstaklingsbundið hversu hrifin börn eru af þessu. Ákveðið hlutfall barna virðist finna til mikillar öryggistilfinningar við þetta. Nú til dags er þó ekki sérstaklega mælt með að reyra þau til langs tíma ef börnin eru ein. En ef þú ert búin að finna ákveðið handbragð við þetta er um að gera að nýta sér það. Þá er tilvalið að reyra lausar og lausar eftir því sem tíminn líður og barnið samþykkir.
Varðandi mjólkina þá ættirðu að athuga hvort ekki er um of hratt flæði að ræða. Margar mæður rugla saman of mikilli mjólk og of hröðu flæði mjólkur. Það er svosem allt í lagi að gefa svona stuttar gjafir stundum en það verða að koma lengri inn á milli eins og þú segir sjálf til að hann fái meira en bara formjólk.
Nei, þú átt alls ekki að pumpa framan af. Þú skalt reyna að klemma brjóstið í byrjun gjafar svo flæðið verði hægara og taka tímann. Eftir 1-2 mínútur tekurðu hann af og lætur ropa. Sjáðu svo til hvort hann er ekki til í að vera aðeins lengur.

Vona að þessi ráð hjálpi.

 

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.