Spurt og svarað

27. október 2006

RS-vírus

Ég á eina rúmlega 3ja mánaða dömu og hef áhyggjur af því hvort hún sé í hættu að fá RS vírusinn þar sem öll frændsystkin hennar fengu hann.  Þar sem ég veit svosem ekkert um þennan vírus annað en að hann leggst á ungabörn þá langar mig að spyrja: 
Hvernig lýsir hann sér?
Á hvaða árstíma er hann algengastur?
Hvernig er hægt að forða (minnka líkurnar) barninu frá því að fá hann?
Hversu hættulegur er hann ungabörnum?
Hvað á maður að gera ef mann grunar að barnið hafi hann?
 
 
Komdu sæl og takk fyrir skemmtilega fyrirspurn.
 
RS-vírusinn lýsir sér sem venjulegt kvef hjá fullorðnum.  Hann leggst hinsvegar þyngra á lítil börn, sérstaklega börn innan við eins árs.  Helstu einkennin eru hiti, slappleiki og kvef með MIKLU slími.  Það er þessi slímmyndun sem getur valdið öndunarerfiðleikum hjá börnum og þá getur þurft að leggja þau inn á sjúkrahús í nokkra daga meðan þetta gengur yfir.  Oft veikjast börn og verða svo enn veikari á þriðja degi en svo fer þetta batnandi uppfrá því.  RS-vírusinn gengur á veturna í janúar og febrúar.  Stundum byrjar hann fyrr og gengur lengur en þetta eru verstu mánuðirnir.  Til að forðast smit er best að umgangast ekki fólk með kvef.  Það getur verið gott að biðja fólk að koma ekki með börnin sín í heimsókn ef þau eru kvefuð, og biðja fólk að þvo sér um hendurnar áður en það kemur við ungbarnið, vera ekki með barnið í fjölmenni eins og í verslunum á þessum tíma og svo framvegis.  Eins þurfa foreldrar að muna efir handþottinum.  Það getur verið erfitt að varna því að barnið smitist af RS sérstaklega ef fleiri börn eru á heimilinu.  Umönnun barns með RS er eins og þegar það fær kvef.  Reyna að láta það drekka vel en gott getur verið að minnka mjólkurmat því hann eykur heldur á slímframleiðsluna.  Það getur þurft að hjálpa barninu með að sjúga slímið úr nefinu en hægt er að kaupa þar til gert sog í apótekum.  Ef það hefur mikinn hita er gott að hafa það léttklætt og jafnvel opna aðeins glugga.  Það getur líka verið gott að gefa hitalækkandi stíla.  Flest börn jafna sig á nokkrum dögum til hálfum mánuði.  Ef barnið fær hinsvegar öndunarerfiðleika þ.e. að foreldrum finns barnið eiga erfitt með að anda vegna mikils slíms er nauðsynlegt að leita læknis.  Þessi sýking getur orðið mjög alvarleg, og eftir því sem börn eru yngri því erfiðara eiga þau með þetta.  Á hverju ári koma upp tilfelli þar sem þarf að setja barn í öndunarvél til að hjálpa því að anda meðan sýkingin gengur yfir. 
 
Vona að þetta hafi frætt þig eitthvað um RS-vírusinn og gert þig tilbúnari til að takast á við hann ef stelpan þín sýkist.  Mundu að flest börn bjarga sér sjálf með hjálp foreldranna en ekki hika við að leita læknis ef þér finnst þú þurfa þess.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
27.10.2006.
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.