Spurt og svarað

26. október 2007

Sár á bak við eyrað

Sælar ljósmæður!

Fimm mánaða dóttir mín fær sár á bak við annað eyrað. Við pössum að þurrka vel eftir bað og sund, auk þess sem við höfum notað AD krem, púður o.fl. sem ekki virðist virka. Hafið þið ráð við þessu?

Svo erum við að fara til Spánar með dömuna, þurfum við að huga að einhverju sérstöku fyrir barnið vegna ferðarinnar.

Kærar þakkir frá föður.Sæll og takk fyrir að leita til okkar.

Það er erfitt að segja hvað þarna er á ferðinni þar sem ég hef ekki séð sárið. En ég ráðlegg ykkur að byrja á því að halda sárinu áfram þurru og leyfa lofti að leika um það. Það hjálpar til við gróandann. Ég ráðlegg ykkur að sleppa því að bera AD-krem á sárið, því húðin getur soðnað undan því. Einnig hindrar það að loft nái að leika um sárið.  Ef þetta ráð dugar ekki ráðlegg ég ykkur að láta lækni líta á þetta, því það er spurning hvort það sé komin einhver sýking í sárið og þurfi þá frekari meðferðar við.

Ég sendi ykkur hér slóð inn á bækling sem er með nokkrum góðum ráðum sem gott er að hafa í huga þegar farið er með börn á sólarströnd. 

Gangi ykkur vel og góða ferð til útlanda.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.