Sefur á maganum

02.03.2009

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Dóttir mín er að verða 7 mánaða og núna undanfarið hefur hún tekið upp á því að snúa sér á magann þegar hún sofnar. Hún virðist sofa best þannig, annars er hún sífellt á iði og frekar óróleg. Er mér óhætt að leyfa henni að sofa á maganum ? Ég er eitthvað svo smeyk við þetta og vakna í tíma og ótíma til að kíkja hvort hún andi ekki örugglega ennþá.

 


 

Góðan daginn.

Þegar börn eru farin að snúa sér sjálf í svefni geta foreldrar ekki ráðið því lengur í hvaða stellingu þau sofa.  Dóttir þín er orðin það gömul og getur hreyft sig sjálf þannig að þú skalt ekki hafa neinar áhyggur af henni og leyfa henni bara að sofa eins og henni finnst best.

Kveðja

 Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2.mars 2009.