Sér maður hvenær snuð eru ónýt?

04.02.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég var að velta fyrir mér tvennu:

  1. Sér maður hvenær snuð eru ónýt eða á maður að henda þeim eftir einhvern ákveðinn tíma? (sá einhvers staðar að ein henti sínum alltaf eftir 2 mánuði).
  2. Strákurinn minn er tæplega 3 mánaða og eingöngu á brjósti. Okkur foreldrana er farið að langa til að bregða okkur frá eina kvöldstund og höfðum þá hugsað okkur að hann fengi einu sinni pela á meðan, það sem ég er að velta fyrir mér er, hvernig pela á maður að kaupa, eru tútturnar ekki eitthvað mismunandi? Getum við lent í því að hann vilji ekki drekka úr pelanum (hann tekur snuð)?

Takk, takk.


Sæl!

Það er best að endurnýja snuð reglulega, sérstaklega ef þau eru mikið notuð, annars er mikilvægast að halda þeim hreinum og sjóða þau í lok dags og eiga alltaf hrein snuð að grípa í.

Varðandi pelanotkun þá myndi ég ráðleggja ykkur að prófa ykkur áfram með pelatúttur og sjá hvað hann vill. Ekki vera að gefa honum pela í fyrsta skipti sem þið skreppið frá. Verið viss um að barnapían verði ekki í vandræðum með að koma næringu ofan í ungann.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. febrúar 2007.