Sísvangur þriggja mánaða

07.08.2005

Sælar,
Ég er með 3 mánaða gamalt barn á brjósti og hann er orðin endalaust svangur. Hvenær á ég að gefa honum að borða,hvað þá,hvernig á ég að fara að því og hvað mikið?

Kveðja Inga.

............................................

Komdu sæl, Inga og til hamingju með drenginn!
Þú ert að gera það besta fyrir barnið þitt með því að brjóstfæða hann
eingöngu og máttu vera stolt af því. Við þriggja mánaða aldur eru börn oft
að taka vaxtarkipp og hegða sér þá eins og þau séu sísvöng. Það er eðlilegt
og ráðið við því er að leggja þau oftar á brjóst til að auka mjólkurframleiðsluna. Framleiðslan eykst þó ekki endalaust eftir því sembörnin stækka, heldur breytist samsetning mjólkurinnar til að aðlagast þörfum barnanna, eftir því sem þau  eldast. Síðan er komið að því að mæta með soninn í þriggja mánaða ungbarnaskoðun á heilsugæslustöðina þína og mun þá væntanlega koma í ljós, hvernig hann vex og þyngist. Þar er tilvalið að spjalla við hjúkrunarfræðinginn þinn um mataræði ungbarna, sem þú átt líka að hafa bækling í höndunum um, frá
heilsugæslunni. En í stuttu máli er mælt með, hér á landi, að hafa börn eingöngu á brjósti til sex mánaða aldurs, svo framarlega, sem þau eru að vaxa og þyngjast eðlilega.
Gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
07.08.2005.