Sjónvarp og ungbörn

06.06.2004

Halló!

Er í lagi að ungbörn, í þessu tilviki 3ja mánaða, horfi á sjónvarp? Hann hefur mjög gaman af því - hreyfingar og litir -  en er það slæmt fyrir augun?

Kveðja.

..........................................................................

Sæl!

Það læra börnin, sem fyrir þeim er haft burtséð frá því hvort foreldrar vilja það eða ekki.

Fordæmi foreldra er mjög áhrifaríkt verkfæri í höndum þeirra til að hafa áhrif á hegðun barna sinna. Það á jafnt við um sjónvarpsáhorf og aðra hegðun þeirra. Sjónvarpsáhorf ungra barna hefur ekki skaðleg áhrif á sjón þeirra en hefur áhrif á heilann og starfssemi hans. Heilinn verður fyrir stöðugu áreiti við sjónvarpsáhorf en hefur ekki náð þroska til að vinna úr öllum þessum áreitum og getur það haft skaðleg áhrif á barnið og orsakað  hegðunarvandamál. Því minna sjónvarpsáhorf að tveggja til þriggja ára aldri barna þeim mun betra fyrir barnið. Í nýlegri sænskri grein í læknisfræðilegu fagtímariti þar sem fjallað er um áhrif sjónvarpsáhorfs á börn, komu fram sterk tengsl á milli áhorfs eins árs barna (í 2,2klst. daglega) og þriggja ára barna (í 3,6klst. daglega) og einbeitingarskorts þeirra við sjö ára aldur. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á ofbeldishegðun þeirra barna, sem horfa mikið á ofbeldi í sjónvarpi. Flestum uppeldis- og sálfræðingum ber saman um að takmarka eigi sjónvarpsáhorf barna og hafa eftirlit með hvaða efni þau horfa á. Það sama á raunar við um tölvuleikjanotkun einnig. Það er hægt að gera svo margt annað til afþreyingar með svona ungu barni en að horfa á sjónvarp eins og bara að vera saman, snerting við hvort annað, kjá saman, tala saman, syngja og hlæja saman sem örvar þroska barnsins og styrkir ykkar tilfinningatengsl og kemur ykkur báðum til góða.

Með von um að þið eigið notalegar sjónvarpslausar stundir saman.

Kolbrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 6. júní 2004.