Spurt og svarað

30. nóvember 2004

Skán í hársverði ungbarna

Sælar.

Hvað veldur skán í hársverði hjá ungbörnum, hvað er hægt að gera til að losna við hana og er hægt að koma í veg fyrir að hún myndist? Svo langaði mig að spyrja ykkur um AD dropa. Barnið mitt er 3 mánaða og ég hef verið að reyna að gefa því AD dropa frá 4 vikna aldri en málið er að það fær svo í magann af dropunum, það er sama þó svo ég fari mjög rólega í þetta, það bregst ekki að næsti dagur er alveg ómögulegur og það fer ekki á milli mála að þetta eru droparnir, ég hef sleppt þeim og þá er allt í lagi.  Á ég bara að bíta á jaxlinn og halda áfram að gefa dropana eða ætti ég að bíða þar til barnið verður eldra?

Takk fyrir :)

.............................................................................


Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Skán í hársverði ungbarna er eðlileg og orsakast oftast nær af óþroskuðum fitukirtlum. Það er hægt fjarlægja hana með því að bera ilmefnalausa olíu í hársvörðinn og láta hana vera þar í 30-60 mínútur og bursta síðan eða greiða skánina burt.

Ef það dugar ekki má nota salicýlvaselín 2% (fæst án lyfseðils í apótekum). Það er borið í hársvörðinn og látið vera í hálfan sólarhring áður en það er þvegið úr. Erfitt getur reynst að ná vaselíninu úr hári barnsins og er þá hægt að nota örlítið sjampó í hárið áður en það er svo skolað vel með vatni. En eins og þú hefur líklega heyrt í ungbarnaverndinni er að öllu jöfnu ekki mælt með notkun sápu eða sjámpói á ungbörn. Það má endurtaka þetta eftir þörfum en stundum verður húðin rauð og aum undan skáninni og er þá rétt að láta dag líða á milli meðferða.
Veit ekki til þess að þú getir gert nokkuð til að koma í veg fyrir að skánin myndist en hún minnkar sjálfkrafa með aldrinum.

Varðandi AD dropana er það rétt, að sum börn finna fyrir óþægindum í maga vegna þeirra og er þá ráð að bíða í einhvern tíma og reyna svo aftur að byrja að gefa þeim dropana, sem mér heyrist þú hafa gert. Þú gætir líka prófað lýsi en magnið yrði ekki það sama. Talaðu um þetta við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni og heyrðu hvað hún hefur um þetta að segja.

Með kveðju og gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
29. nóvember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.