Skert sykurþol

08.02.2008

Ég er 25 ára og engin saga um sykursýki í ættinni. Ég er lítil og of mjó að margra mati. Ég greindist með skert sykurþol á minni fyrstu meðgöngu eða fastandi 5,5, 60 mín 9,5 og 2klst 10,2. Það gekk rosa vel að halda sykri niðri,var alltaf langt fyrir neðan sett mörk sem allir voru glaðir með. Barnið fætt 12 merkur og 47 cm og allt var fullkomið. Ég er ekki með sykursýki í dag var 4,5 fastandi og 4,6 í langtíma sykri! Ég er bara svo yfirþyrmandi hrædd um að fá sykursýki seinna á ævinni og að það verði snemma að ég hugsa um það allan sólarhringinn og líður illa vegna hræðslu. Ég get ekki borðað nammi eins og áður öðruvísi en að fá samviskubit. Það eru allir hræddir um að ég sé að fá anorexiu því ég þori ekki að borða eins og ég gerði fyrir meðgöngu. En miðað við mínar tölur og að sykursýkin hvarf algerlega og enga ættarsögu er ég þá ekki í góðum málum og ætti að hætta þessum öfgum? Mér finnst ég ekki lifa lífinu hamingjusöm eins og ég gerði af ótta við að þetta komi upp!með von um svör.


Sæl og blessuð!

Það er alveg rétt að þær konur sem fá meðgöngusykursýki og skert sykurþol á meðgöngu eru í aukinni áhættu að fá sykursýki síðar á ævinni. Sykursýki er vaxandi vandamál í okkar þjóðfélagi eins og bent hefur verið á í fréttum að undanförnu. Það er rétt hjá þér að ættarsaga skiptir þarna máli.Ofþyngd og hreyfingarleysi eru stórir áhættuþættir og því skiptir líka miklu máli er að halda sér í kjörþyngd og stunda hreyfingu. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað það skiptir miklu máli að borða hollan mat og hreyfa sig hæfilega. Þú ættir ekki að þurfa að hafa samviskubit þó að þú fáir þér sætindi af og til ef þú borðar öllu jöfnu holla fæðu og hreyfir þig reglulega.

Vona að þetta svari einhverju.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. febrúar 2008.