Spurt og svarað

08. maí 2006

Skrið ungbarna

Sælar ljósmæður!

Hafið þið heyrt um eða séð rannsóknir sem sýna að börn sem fara seint að skríða eigi síðar á ævinni við lestrarerfiðleika að stríða (hafi eitthvað með samhæfinguna að gera). Ég hef heyrt þetta tvisvar en veit ekki hvað er til í þessu. Strákurinn minn er 10 mánaða og vill ekki vera mikið á maganum en hann fer aftur á bak, í hringi og dregur sig aðeins áfram en er ekki farinn að skríða.

Áhyggjufull móðir.


Komdu sæl.

Barn telst vera með eðlilegan hreyfiþroska ef það fer að skríða á fjórum fótum að meðaltali um níu mánaða aldur. Það eru alltaf til eðlileg frávik frá meðaltalinu án þess að það teljist óeðlilegt eða fólk þurfi að örvænta.

Sonur þinn er aðeins tíu mánaða og því ekki ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur, ef allt annað er eðlilegt hjá honum, varðandi vöxt og þroska. Það er hægt að örva hjá honum skriðið með því að leyfa honum að vera á gólfinu að leika sér og leggja hann á magann og hjálpa honum að setja undir sig hnén og fara upp á hendurnar. Hann gæti líka örvast til skriðs ef aðrir krakkar eru í kringum hann, sem skríða og foreldrarnir geta líka brugðið á leik og gert það sama stund og stund. Það getur verið erfitt að fóta sig á sleipu parketgólfi og þarf að taka tillit til þess, en mörg börn bregða fyrir sig „parketskriði“ þar sem þau færa sig áfram í sitjandi stöðu á rassinum og nota hendurnar í leiðinni til að koma sér áfram, í stað þess að skríða á fjórum fótum.

Heyrði sjálf þessa kenningu um samband skriðs og lestrarnáms fyrir u.þ.b. tíu árum síðan, en hef ekki lesið rannsóknina sjálf, þar sem talað var um, að börn, sem sleppa skriðstiginu gætu hugsanlega átt við lestrarerfiðleika að stríða seinna meir. Fann heldur ekki þessa rannsókn við leit á vefnum.
Varðandi flestar rannsóknir ber að varast að alhæfa nokkuð um niðurstöður þeirra en gagnlegt gæti verið að hafa í huga mögulegar vísbendingar um niðurstöðurnar, sem gætu nýst okkur á jákvæðan hátt. Við skulum varast að fara að búa til vandamál, sem hugsanlega gæti einhvern tíma skotið upp kollinum eða fara að hafa óþarfa áhyggjur, sem geta komið í veg fyrir að við njótum þess að vera til. Einbeittu þér frekar að því að njóta þess að eiga þennan yndislega dreng og örvaðu almennan þroska hjá honum eins og þú getur í stað þess að vera með áhyggjur af einhverju, sem er ekki raunverulegt í dag og verður kannski aldrei.

Það er líka gott að hafa í huga, að ekkert barn er eins og sérhvert barn er einstakt og því er það hlutverk okkar foreldranna að viðurkenna og elska barnið okkar eins og það er svo það geti vaxið og dafnað og vonandi orðið hamingjusamur einstaklingur. Ræddu þetta líka við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni ykkar.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.