Slímugar hægðir

24.08.2005
Sælar og takk fyrir frábæran vef,
Þannig er málið að dóttir mín, 7 vikna, sem drekkur mjög vel, þyngist vel og hefur hægðir u.þ.b. eftir hverja gjöf, er búin að vera óróleg í maganum svona af og á í nokkrar vikur. Hún er greinilega mjög viðkvæm fyrir því sem ég borða og ekki borða! Í dag voru hægðirnar hjá henni (2x) frekar slímugar og ekki svona kornóttar eins og þær eru venjulega. Þær eru samt gular eins og venjulega.  Hvers vegna er það? Er það eitthvað sem ég þarf að tala um við einhvern mér fróðari, þ.e. lækni eða er þetta fullkomlega eðlilegt?
Kveðja,
Nýbökuð móðir
...................................................
 
Komdu sæl
 
Hægðir hjá ungbörnum geta verið mjög breytilegar og er það alveg eðlilegt.  Eins og þú hefur sjálf fundið þá hefur fæða þín áhrif á hægðirnar hennar þannig að sennilegast er þetta útaf einhverju sem þú hefur borðað.  Það tekur tíma fyrir meltingu ungbarna að aðlagast fæðunni og vinna úr henni. 
Þú gætir reynt að finna út hvaða mat hún þolir ekki að þú borðir og sleppa honum á meðan þú ert með hana á brjósti.  Það getur verið gott að prufa með því að borða eitthvað ákveðið á morgnanna og sjá hvernig hún bregst við því fram eftir degi (ef þú ert að borða eitthvað sem hún þolir ekki á kvöldin geta næturnar orðið erfiðar).
Ef þú ert áhyggjufull þá er sjálfsagt fyrir þig að leita til ungbarnaverndarinnar eða læknis og ráðfæra þig við þau.
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
24.08.2005.