Slysavarnir - Gasskynjararar

14.07.2007

Sælar!

Ég fékk nýverið bækling um slysavarnir en finn hvergi upplýsingar um hvort að æskilegt sé að nota gasboða (eins og brunaboði nema gefur til kynna ef að það er gasleki) þegar maður er með gaseldavél. Þessir gasboðar fást í byggingavöruverslunum en það eru ekki nægilega góðar upplýsingar utan á pakkanum og starfsfólkið virðist ekki vita mikið um þá. Því langar mig að spyrja ykkur hvort að þið mælið með þessu öryggistæki eða hvort að það sé yfirleitt mikil hætta á gasleka þegar maður er með gaseldavél (gaskúturinn er utandyra og fagmenn tengdu).


Sæl og blessuð!

Það er mælt með því að hafa gasskynjara þó svo að kúturinn sé úti. Slys tengd þessu hafa ekki verið mörg hér á landi, enn sem komið er, en reyndar ekki mörg ár síðan að almenningur fór almennt að vera með gas heima hjá sér. Ef gas lekur þá áttar fólk sig yfirleitt ekki á því nema að það átti sig á einkennunum sem þeim fylgja s.s. syfju. Ef fólk er sofandi þá verður það ekki vart við neitt. Síðan er hættan á að kveikt sé á eldi þegar leki er til staðar en þá getur orðið sprenging.

Drífðu nú bara í því að fá þér gasskynjara og fáðu leiðbeiningar um það hvar best sé að staðsetja hann. Venjulega eru gasskynjarar settir niður við gólf þar sem gas er þyngra en andrúmsloft og leitar því niður. Það eru nánari upplýsingar um gasskynjara í VÍS-fréttum, bls. 4.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. júlí 2007.