Spurt og svarað

18. apríl 2006

SMA eða stoðmjólk?

Sælar „mæður“ og takk fyrir mjög góðan og afar gagnlegan vef!

Ég er með gutta sem er orðinn 5 mánaða og er með hann á brjósti en er farin að gefa honum graut einu sinni á dag, þó svo að ég sleppi ekki úr gjöf í staðinn. Hann drekkur u.þ.b. 6 sinnum á dag. En frá því hann fæddist hefur hann verið mjög latur að sjúga og er enn þann dag í dag mjög latur.
Hann hefur alveg verið að þyngjast nóg en samt bara 100 - 150 á viku að meðaltali, frá því ljósmóðirin kom í fyrsta skipti heim. Hún segir að ég geti ekkert kvartað yfir þessu.

Málið er samt að ég hef áhyggjur af honum því önnur börn, á sama aldri og hann, eru miklu „feitari“ en minn og liggja miklu lengur á brjóst en minn. Það er eins og hann gefist upp eftir að hann þarf að sjúga fastar og hættir að leka uppí hann, þá fer hann bara að væla, sýgur smá, vælir meira og sýgur smá o.s.frv.. Svo er hann á fullu (hreyfir sig mjög mikið) eiginlega alla gjöfina sem mér finnst gera að verkum að hann ælir alltaf slatta eftir gjöf.

Ég er búin að reyna ýmislegt, s.s. breyta um stellingar í brjóstagjöfinni t.d. fótboltastellinguna og fleira, einnig halda honum við brjóstið en það vill hann að sjálfsögðu ekki og fer að væla. Þetta reynir mjög mikið á mig og mér líður yfirleitt mjög illa eftir gjafirnar og finnst ég ekki vera að standa mig og verð líka pirruð út í guttann minn að hann vilji ekki brjóstið, þó svo að ég reyni og reyni. Mér finnst ég samt búin að vera afar þolinmóð við hann frá byrjun því þetta hefur verið þrautinni þyngri að fá hann til að taka brjóstið allan þennan tíma.

Er eitthvað meira sem ég get gert til að reyna að fá hann til að sjúga brjóstið betur eða á ég bara að halda áfram að vera eins þolinmóð og ég get? Ég er við það að gefast upp á þessu því mér finnst ég frekar vera að gera honum grikk en greiða! Er líka búin að reyna að mjólka mig og gefa honum mjólkina úr sprautu en mér þykir það ákaflega vont og leiðinlegt. Hef ekki þorað að gefa honum mjólkina úr pela því ljósmóðirin sagði að ef ég færi að venja hann á pelann þá myndi hann eingöngu vilja hann því hann er það latur á brjóstið. Eru til fleiri lausnir?

Svo er það ein spurning hér til viðbótar. Hvort á ég að gefa guttanum mínum stoðmjólk eða SMA þegar ég fer að minnka brjóstagjöfina? T.d. bara úr stútkönnu við matarborðið eftir að hann er búinn að fá grautinn sinn? (Er reyndar farin að gefa honum smá vatn úr stútkönnu eftir grautinn og gengur vel).

Með kveðju og fyrirfram þökk, Guðrún.

 


 

Sælar!

Já það er greinilegt að þú hefur verið dugleg með drenginn þinn á brjósti - mér sýnist að þú hafi gert þitt besta í þessum málum. Ef þú villt gefa honum eitthvað annað að drekka en móðurmjólk - þá er ráðlagt að gefa þurrmjólk fram að 6 mánaða og stoðmjólk eftir 6 mánaða. Það er gott að gefa þeim úr stútkönnu vegna þess að börn sem eru búin að vera svona lengi á brjósti eins og þinn strákur vilja oft ekki sjúga pela. Hann fer að borða fjölbreyttari fæðu eftir 6 mánaða og þá fara börnin oft að drekka minna magn úr brjóstinu og þá verður þetta trúlega auðveldara fyrir ykkur.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.