Spurt og svarað

27. júlí 2006

Snuð eða ekki snuð, misvísandi upplýsingar

Sælar!

Þann 23.07.2006 settuð þið á vefinn svar við spurningu þar sem væntanleg móðir spyr hvers vegna eigi að gefa börnum snuð, hvort einhver góð ástæða sé fyrir því að gera það. Katrín svarar því til að henni detti engin ástæða í hug og hrósar hinni væntanlegu móður fyrir náttúruleg sjónarmið. Þarna finnst mér gæta misræmis í ráðunum sem gefin eru hérna á síðunni þar sem eftirfarandi stendur undir Slysavarnir - Ungbarn lagt til svefns: „Nýjar rannsóknir benda til þess að notkun snuðs á svefntíma dragi úr líkum á vöggudauða. Nú er því mælt með notkun snuðs á svefntíma ungbarna, þó ekki fyrr en brjóstagjöf er komin vel á veg, enda er brjóstagjöfin einnig talin vera mikilvæg vörn gegn vöggudauða“.

Hvort er nú það rétta? Hef áhuga á að vita það því ég stóð í því að venja 3 mánaða gamla dóttur mína á snuð vegna þessa ráðs.

Kveðja, Hanna.


Sæl öll, og takk fyrir mjög góðan vef.

Þar sem ég er ófrísk af mínu 3ja barni núna þá fylgist ég með vefnum ykkar og les öll svör við  fyrirspurnir sem ykkur hafa borist.  Ég hef verið mjög sammála ykkar svörum við þeim þó var ég nokkuð hissa að sjá svar frá ykkur við fyrirspurn sem birt var á vefnum 23.07.2006, Af hverju að gefa börnum snuð? Þann 4.4.2006 birtist frétt hjá ykkur þar sem fyrirsögnin var Snuðnotkun talin draga úr líkum á vöggudauða. Þar kom fram að fréttin var komin frá Landlæknisembættinu. Þar sem ég á að baki 2 velheppnaðar brjóstgjafir í 10 og 13 mánuði og er mikil áhugamanneskja um brjóstagjöf er ég mjög sammála því að ekki eigi að halda snuði að börnum fyrstu vikurnar meðan brjóstagjöfin er að komast vel á legg, en ekki er annað að sjá fyrir leikmann eins og mig að það að venja barn á snuð seinna getur gert því gott, miðað við þær leiðbeiningar sem Landlæknir gefur út.  Því get ég ekki betur séð en að eitthvað misræmi sé á milli svars ykkar við fyrirspurninni og leiðbeininganna sem m.a. birtist á ykkar eigin vef.  Vonandi verður þetta leiðrétt. Það að venja barn á snuð er hægt þó að barnið sé orðið nokkuð stálpað t.d. var dóttir mín 7 mánaða þegar hún „óvart“ ákvað að snuð væri eitthvað sem hún vildi. Sonur minn var þó yngri u.þ.b. 8 vikna þegar hann byrjaði.

Að lokum vil ég þakka fyrir mjög skemmtilegan og löngu þarfan vef.  Að lesa vefinn ykkar styttir tímann fram að „stóru“ stundinni.


Sælar!

Það er vel skiljanlegt að ykkur finnist þetta ruglingslegt. Það finnst það fleirum.  Í grunninn er náttúrlega verið að reyna að gera metnaðarfullar tilraunir til að koma í veg fyrir eins mörg tilfelli vöggudauða og mögulegt er. Það er að sjálfsögðu mjög vel. Til þess eru gerðar fjöldi rannsókna og svo reynt að lesa úr þeim svör sem geta mögulega hjálpað. Forsendur og umhverfi rannsóknanna eru svolítið mismunandi og margar þeirra eru gerðar í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þar eru aðstæður barna svolítið aðrar en hjá okkur. Mikill hluti barna þar eru á þurrmjólk úr pela og mikil hefð er fyrir því að börn sofi fjarri foreldrum sínum, í sér rúmi eða jafnvel í öðru herbergi. Rannsóknirnar gera oft lítinn greinarmun á hvort barnið er á brjósti eða pela eða hvar það sefur heldur eru sett öll undir sama hatt. Svo er bara talið hve mörg börn voru síðast lögð til svefns með snuð og þegar það reynist vera meirihluti þá er það talið hugsanlega geta stuðlað að færri vöggudauðatilfellum.

Mannfræðingar benda á að börnum sé eiginlegt að sofa nálægt foreldrum sínum og að saman myndi móðir og barn svefn og öndunarmynstur sem sé verndandi gegn vöggudauða. Það hefur líka verið sýnt fram á að brjóstagjöf sé verndandi gegn vöggudauða, sömuleiðis baklega og fleiri þættir. Sérfræðingar eru hins vegar stundum í vandræðum þegar kemur að því að útskýra af hverju hitt eða þetta sé verndandi eða áhættuþáttur og sumt er byggt á tilgátum. Það er hins vegar tilgangurinn sem helgar meðalið og ef hægt er að forða fleiri börnum frá vöggudauða þá er það auðvitað frábært.

Snuð er augljóslega ekki hluti af nauðsynjum barna frá náttúrunnar hendi frekar en rúm eða skiptiborð. Það er hins vegar spurning hvort snuðnotkun geti hjálpað til að gera öndun barna eðlilegri þegar þau sofa fjarri foreldrum sínum og eru jafnvel ekki heldur á brjósti. Það er hins vegar alltaf erfitt að reyna að setja mikilvægar reglur til að hjálpa ef síðan þarf að setja í smátt letur „en ef..., en undantekning er ef...“ o.s.frv.

Niðurstaðan er því sú að börn þarf ekki að venja á snuð ef þau eiga að vera eingöngu á brjósti og einkum og sér í lagi í upphafi brjóstagjafar getur snuð truflað eða jafnvel eyðilagt brjóstagjöf.

Snuðnotkun barna sem eru ekki á brjósti og/eða sofa fjarri foreldrum sínum getur samkvæmt rannsóknum hjálpað til að minnka líkur á vöggudauða.

Vona að þetta hafi skýrt málin að einhverju leyti.

Bestu kveðjur.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. júlí 2006.

 

Kæru notendur www.ljosmodir.is

Ég fagna því hve notendur síðunnar eru glöggir og snöggir að láta okkur vita þegar svona misræmis gætir í upplýsingunum hér á síðunni. Það er ekki gott að fá misvísandi upplýsingar frá fagfólki eins og þið hafið upplifað nú. Ein af ástæðum þess að síðan okkar var sett á laggirnar var að reyna að draga úr misvísandi upplýsingum með því að gefa góðar og faglegar upplýsingar.  Upplýsingagjöf á vefsíðu gefur einnig möguleika á að koma nýjum upplýsingum fljótt á framfæri því alltaf eru jú að koma fram nýjar upplýsingar í þessum fræðum. Það sem við mælum með í dag getur verið úrelt á morgun.

Það er ekki alltaf einfalt að gefa ráð og það er ekki alltaf bara eitt svar. Hlutverk okkar er að gefa upplýsingar og svo er það ykkar að velja. Mitchell, Blair og L'Hoir (2006) gerðu úttekt á rannsóknunum á bak við snuðnotkun og vöggudauða. Þau komust því sama og aðrir að snuðnotkun dregur úr vöggudauða en gátu ekki greint ástæðuna fyrir því. Þau nefndu t.d. að snuð er oftast dottið út úr barninu innan við 30 mínútum frá því að það sofnar svo það var ekki endilega verndandi að sofna með snuðið eins og áður hefur komið fram, heldur snuðnotkun almennt. Þau komust einnig að því að snuðnotkun gæti dregið úr brjóstagjöf en tóku fram að rannsóknir sýndu misvísandi niðurstöður í því sambandi.  Þau drógu þá ályktun að fagfólk ætti ekki að reyna að draga úr snuðnotkun en töldu að meiri rannsóknir þyrftu að fara fram áður en fagfólk færi beinlínis að hvetja til snuðnotkunar. Með þessar upplýsingar í huga er ekki annað að gera en að gefa foreldrum upplýsingar um hugsanlega kosti og hugsanlega ókosti í sambandi við snuðnotkun skilja valið eftir hjá þeim. Ég set alltaf spurningamerki við það þegar verið er að verið er að grípa fram fyrir hendurnar á náttúrunni með inngripum s.s. snuðnotkun nema fyrir því séu mjög góð rök. Spurningin er því bara hvort þessar rannsóknir á vöggudauða og snuðnotkun séu nægjanlega góð rök.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. júlí 2006.

 

Heimild

Mitchell, E.A., Blair, P.S & L'Hoir, M.P. (2006). Should pacifiers be recommendded to prevent Sudden Infant Death Syndrome? Pediatrics, 117 (5), bls. 1755-1758.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.