Snuð og pelar

26.11.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég var að velta fyrir mér tvennu;

  1. Sér maður hvenær snuð eru ónýt eða á maður að henda þeim eftir einhvern ákveðinn tíma?
  2. Strákurinn minn er tæplega 3 mánaða og eingöngu á brjósti. Okkur foreldrana er farið að langa til að bregða okkur frá eina kvöldstund og höfðum þá hugsað okkur að hann fengi einu sinni pela á meðan, það sem ég er að velta fyrir mér er; Hvernig pela á maður að kaupa, eru tútturnar ekki eitthvað mismunandi? Getum við lent í því að hann vilji ekki drekka úr pelanum (hann tekur snuð)?

Takk, takk.


Sæl!

Ég hef ekki heyrt um einhvern ákveðinn skiptitíma, fer eftir notkun býst ég við en auðvitað er skynsamlegt að skipta út þegar farið er að sjá á snuðinu, auðvitað þarf að sjóða þau reglulega til að hreinsa þau.  Það er sjálfsagt að undirbúa það að fara frá krílinu, ég myndi prófa að gefa pela áður til að athuga hvort það gangi örugglega, ekki leggja það á barnapíuna að reyna eitthvað nýtt með ungann!  Túttur eru smekksatriði hvers og eins barns þið verðið bara að prófa ykkur áfram.  Ef pelagjöf gengur ekki má reyna að hella upp í krilið með litlu staupi.

Með von um góða kvöldstund,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. nóvember 2006.