Spurt og svarað

07. apríl 2008

Snuð, blautklútar og brjóstagjöf

Kæru ljósmæður,

Mig langar að spyrja þriggja spurninga sem ég hef lengi velt fyrir mér.

Nr. 1  Snuð frá öllum fyrirtækjum koma í mismunandi stærðum og eru þá ætluð yngri eða eldri börnum o.s.frv. En hvers vegna ætti maður að gefa barninu stærra snuð? Er eitthvað sem mælir með því? Er það þá bara ekki verra fyrir tennurnar þegar þar að kemur?

Nr. 2  Fyrir 3-4 mánuðum kom frétt í sjónvarpinu um skaðleg efni í blautþurrkum.  Ég hef leitað mikið að því hvaða efni þetta voru og reynt að finna eitthvað um þetta en ekki fundið nein endanleg og traustvekjandi svör. Vitið þið hvaða efni þetta voru?

Nr. 3  Þetta er nú ekki beinlínis spurning... frekar ábending. Þegar ég var ófrísk þá kíkti ég á vefinn ykkar nánast á hverjum degi og nýtti mér hann mikið. Ég fékk nánast alltaf svör við mínum spurningum og þau voru alltaf góð og gagnleg. Hins vegar lenti ég í því að eftir fæðinguna þá voru ýmsar flækjur varðandi brjóstagjöfina. Ég leitaði hingað á vefinn eftir ráðum en allt sem ég las var litað sterkum skoðunum ljósmæðranna sem skrifuðu og oft á tíðum alveg rosalega fordómafullt. Þetta lét mér líða eins og ég væri hræðileg móðir að geta ekki gefið barninu mínu brjóst án vandkvæða.

Til dæmis stóð í einni greininni að þetta væri sko alltaf bara spurning um tækni og þolinmæði... Sem betur fer var ég hjá yndislegri ljósmóður í mæðraskoðun, sem líka er brjóstagjafaráðgjafi og hún stappaði í mig stálinu og sagði mér að þetta væri sko ekki svona klippt og skorið og mismunandi eftir hverri konu. Ég ákvað að hlusta alltaf bara á hana frekar en þær gagnrýnisraddir sem mér fannst ég heyra alls staðar í kringum mig og eftir mikla vinnu, endalausa þolinmæði og þrjósku við að nota aðferðir sem þóknuðust ekki öllum, þá tókst mér að komast upp á lag með brjóstagjöfina og barnið mitt sem er nú 8 mánaða er enn á brjósti!

Mig langar því að biðja ykkur kæru konur, um að hafa það í huga þegar þið skrifið greinar hér inn, að oft á tíðum eru viðkvæmar ungar mæður í erfiðri aðstöðu sem lesa svörin ykkar og því er kannski reynandi að gæta hlutleysis í sumum umræðum...

En takk kærlega fyrir allt,

Fröken Vangavelta

 


 

Komdu sæl

Ég verð að viðurkenna að ég kann ekkert eitt svar við þessu með snuðin en ef snuðið passar barninu nær það frekar að fullnægja sogþörfinni og snuðið virkar róandi.  Öll snuð hafa áhrif á tennurnar þegar þær koma en venjulega gengur snuðlagið á tönnunum til baka þegar barnið hættir með snuð (ef það gerist á skikkanlegum tíma).

Þau efni í blautklútum sem oftast valda ofnæmi eru lyktarefnin.

Ég þakka kærlega fyrir ábendinguna í þriðja lið og eins og þú bendir á er þolinmæðin það sem gildir í brjóstagjöf.

Kær kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. apríl 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.