Spurt og svarað

13. júní 2008

Sólarvörn á ungbarn?

Ég er á báðum áttum um hvort ég eigi að nota sólarvörn á ungabarn.
Ég fékk fyrirmæli frá húðsjúkdómalækni um að nota engar sólarvarnir á börn undir eins árs aldri þar sem þær eru of kemískar fyrir ungbarnahúð (barnið er ekki með viðkvæma húð). Læknirinn sagði mér einfaldlega að hylja húð barnsins þ.e. ekki láta skína á bert hold og að barnið ætti að vera í skugga. Nú er ég ekki á leið erlendis en tel óhjákvæmilegt að sól skíni á andlit barnsins t.d. þegar það situr í vagni þrátt fyrir sólhatt og vagnaskerm. Læknirinn var mjög harður á þessu og eftir smá "gúgl" þá las ég að í Ástralíu er megináhersla á að hylja húð og hafa barnið í skugga... setja sólarvörn eingögnu á handarbak, andlit og eyru.

Hvað er ráðlagt í ungbarnaeftirlitinu hér á landi? Sólarvarnir eða ekki? 


 

Komdu sæl

Hann veit nú sjálfsagt hvað hann er að segja þessi húðsjúkdómalæknir, ég efast ekki um það.  Í ungbarnaverndinni er verið að afhenda bæklinga sem heita "Með barnið á sólarströnd" og er gefinn út af Miðstöð heilsuverndar barna, endurskoðaður síðast 2005 og þar er mælt sterklega með sólarvörn án ilmefna með stuðli a.m.k. 25-30 og nota hæstu vörn 50-60 á viðkvæmustu svæðin eins og andlit, herðar, eyru og bak.  Einnig er ráðlagt að láta barnið vera í fötum og skugga og nota sólhlíf, en samt með sólarvörn.  Ég ráðlegg þér eindregið að verða þér út um þennan bækling þar sem fleira gagnlegt kemur þar fram eins og um klæðnað, mat, flugferðina og fleira.

Góða skemmtun

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
13. júní 2008.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.