Spurt og svarað

27. maí 2006

Sólhattur og C-vítamín fyrir 9 mánaða

Ég hef gefið 9 mánaða drengnum mínum Sólhatt og C vítamín þegar hann hefur verið að fá kvef.  Þetta hefur virkað vel hingað til. Nú las ég grein í Morgunblaðinu um að Sólhattur gæti verið ofnæmisvaldandi. Er það rétt? Teljið þið að ég eigi ekki að gefa drengnum þetta?


Komdu sæl!

Kvef orsakast af vírussýkingu og eru ekki til nein lyf, sem lækna kvef, heldur verður ónæmiskerfi hvers og eins að vinna bug á því. Sjaldnast sýkjumst við af sama vírusnum tvisvar. Ég sé á fyrirspurninni þinni, að þú ert umhyggjusöm móðir, sem vilt gera það, sem í þínu valdi stendur, til að hjálpa drengnum þínum að batna sem fyrst, þegar hann fær kvef.  Til þess gefur þú honum Sólhatt og C-vítamín. Það læknar áreiðanlega ekki kvefið. Ef það dregur úr einkennum eða þér finnst það hjálpa honum á einhvern hátt er það undir þér sjálfri komið, hvort þú gefur honum þetta, svo framarlega sem þú ferð eftir leiðbeiningum á umbúðunum um skammtastærð eftir aldri eða þyngd.

Sólhattur er unninn úr jurtinni Echinacea angustifolia, sem er af körfublómaætt. Klínískar rannsóknir gefa vísbendingu um, að hann geti verið örvandi fyrir ónæmiskerfið og þannig hjálpað til við að vinna bug á sýkingum. Ofnæmisviðbrögð geta komið fram hjá sumum, einkum ef þeir hafa ofnæmi fyrir öðrum jurtum af körfublómaætt. Um lyf og lyfjagjafir gilda mjög strangar reglur hér á landi sem annars staðar og treysti ég mér ekki til að mæla með notkun þessa jurtalyfs, þar sem það liggja ekki fyrir nægjanlegar vísindalega staðfestar klínískar rannsóknir, sem sanna verkun eða aukaverkun þess. Mannslíkaminn er mjög fullkomin en að sama skapi flókinn og því geta efni sem tekin eru inn haft jákvæð áhrif á vissa líkamsstarfssemi en neikvæð áhrif á aðra.

Þér er alveg óhætt að spyrja lækninn um álit hans, þegar þú ferð með drenginn í 10 mánaða ungbarnaskoðun á heilsugæslustöðina ykkar.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.