Spurt og svarað

04. desember 2007

Sótthreinsun handa

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!

Í dag virðast allir nýbakaðir foreldrar vera með DAX-sótthreinsivökva og/eða sápu sem ætlast er til að eldri börnin á heimilinu og allir gestir noti áður en komið er nálægt nýburanum. Jafnframt hafa nýbakaðar mæður í kringum mig klippt eigin neglur niður fyrir kviku þar sem sýklar setjast gjarnan að undir nöglum. Er þetta einhver nýlunda sem mælt er með í ungbarnaeftirliti og er þetta nauðsynlegt? Er enginn hætta á því að fólk gangi of langt í hreinlæti og veiki ónæmiskerfi barnanna? Ég spyr því við eigum von á okkar öðru barni og munum ekki eftir þessum áherslum fyrir sjö árum síðan en eigum þó hraust barn sem hefur eiginlega aldrei orðið lasið! Á ég að fjárfesta í sótthreinsivökva áður en barnið kemur í heiminn :-)


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er alveg fullnægjandi að þvo vel hendur með volgu vatni og sápu og þerra vel á eftir áður en farið er að annast nýfædd börn. Það er alveg rétt hjá þér að börn verða að fá tækifæri til að kynnast þeim bakteríum sem eru í umhverfi okkar. Talið er að aukin tíðni á astma og ofnæmi skapist af of miklu hreinlæti í kringum nýfædd börn og almennt í umhverfi okkar, þar með talið þessi mikla notkun á sótthreinsivökva.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.