Sótthreinsun handa

04.12.2007

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!

Í dag virðast allir nýbakaðir foreldrar vera með DAX-sótthreinsivökva og/eða sápu sem ætlast er til að eldri börnin á heimilinu og allir gestir noti áður en komið er nálægt nýburanum. Jafnframt hafa nýbakaðar mæður í kringum mig klippt eigin neglur niður fyrir kviku þar sem sýklar setjast gjarnan að undir nöglum. Er þetta einhver nýlunda sem mælt er með í ungbarnaeftirliti og er þetta nauðsynlegt? Er enginn hætta á því að fólk gangi of langt í hreinlæti og veiki ónæmiskerfi barnanna? Ég spyr því við eigum von á okkar öðru barni og munum ekki eftir þessum áherslum fyrir sjö árum síðan en eigum þó hraust barn sem hefur eiginlega aldrei orðið lasið! Á ég að fjárfesta í sótthreinsivökva áður en barnið kemur í heiminn :-)


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er alveg fullnægjandi að þvo vel hendur með volgu vatni og sápu og þerra vel á eftir áður en farið er að annast nýfædd börn. Það er alveg rétt hjá þér að börn verða að fá tækifæri til að kynnast þeim bakteríum sem eru í umhverfi okkar. Talið er að aukin tíðni á astma og ofnæmi skapist af of miklu hreinlæti í kringum nýfædd börn og almennt í umhverfi okkar, þar með talið þessi mikla notkun á sótthreinsivökva.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. desember 2007.