Spurt og svarað

30. júlí 2007

Spurningar um efni fæðingarskýrslu

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef.

Ég geng nú með mitt annað barn og bý erlendis. Fyrsta barn eignaðist ég í Danmörku og var það löng og erfið fæðing sem endaði með sogklukku og miklum saumaskap.  Ég spurði aldrei neitt sérstaklega út í fæðinguna og afleiðingar hennar, var í hálfgerðu sjokki og finnst ég fá lítið um svör í nýja landinu. Í fæðingarskýrslunni stendur að ég hafi rifnað alveg niður að sphincter og hafi "disposition for sphincterruptur" en það stendur ekkert um hversu mörg spor ég var saumuð eða hvaða stigs rifan er. Þá stendur líka að að rifan hafi verið vegna "uregelmæssig baghovedpræsentation". Nú langar mig að spyrja hvort það sé algengt að rifna á þennan hátt og
hvort það sé eitthvað sem ég get gert til þess að koma í veg fyrir að ég rifni svona aftur við næstu fæðingu. Eins og ég sagði þá finnst mér ekki auðvelt að spyrja um þetta á öðru tungumáli en mínu móðurmáli og vona ég því að þið hafið einhver svör handa mér.


Takk fyrir að leita á ljósmóðir.is. og til hamingju með að vera aftur barnshafandi! Það er alltaf svolítið erfitt að svara spurningum um „afleiðingar” fyrri fæðingar þegar upplýsingar sem maður hefur undir höndum eru takmarkaðar. Við fyrstu sýn virðist ástæðan fyrir erfiðri og langri fæðingu hjá þér vera sú að litla barnið þitt hefur komið niður „skakkt” og það getur oft skýrt hvers vegna fæðingin gengur ekki eins og vera skyldi. Og líklegasta skýringin fyrir því að þú hafir rifnað niður að endaþarmsvöðva er líklega vegna sogklukkufæðingar, en þó virðist vöðvinn sjálfur hafa verið heill. Og það er nú yfirleitt það sem skiptir máli fyrir framhaldið. Saumaskapur eftir fæðingu getur oft verið tímafrekur en þarf ekki endilega að þýða að rifan sé slæm. Yfirleitt gróa þessar rifur vel, enda er blóðfæðið á þessu svæði mjög gott. Þær konur sem hafa tilhneigingu til að lenda í vandræðum eftir fæðinguna eru í flestum tilfellum konur þar sem rifur í endaþarm hafa ekki verið greindar og þá grær vöðvinn illa saman, oft með hvimleiðum afleiðingum.

Eins og þú líklega veist eru spangarrifur flokkaðar frá fyrstu gráðu rifu til fjórðu gráðu rifu. Fyrsta gráða rifa er þá rifa í slímhúðina, annarrar gráðu rifa niður í vöðvalag, þriðja gráðu rifa niður í endaþarmsvöðva og fjórða gráðu rifa þegar endaþarmsvöðvinn fer í sundur. Algengustu rifur eru annarrar gráðu rifur, sérstaklega hjá konum sem eiga sitt fyrsta barn. Ein algengasta orsök fyrir „alvarlegri” spangarrifum eru áhaldafæðingar, þ.e. sogklukkufæðingar og tangarfæðingar, eins og raunin er í þínu tilfelli. Það þarf hins vegar alls ekki (fræðilega) að þýða að þú sért í áhættuhópi fyrir að ”rifna illa” aftur í næstu fæðingu. Ég skil reyndar ekki alveg hvers vegna sagt er skýrslunni þinni að þú hafir “tilhneigingu til að fá endaþarmsrifu” og mér finnst að þú eigir að spyrja ljósmóðurina í mæðraverndinni um það atriði og biðja hana að fara með þér í gegnum skýrsluna. Rannsóknarniðurstöður eru alls ekki samhljóma um tengsl fyrri spangarrifa við útkomu í næstu fæðingum. Á námskeiði sem haldið var hér á landi af sérfræðingum í Bretlandi um spangarrifur var það eindregin niðurstaða þeirra að t.d. konur sem áður hafa rifnað í endaþarm geti átt góða reynslu af næstu fæðingu hvað varðar útkomu á sjálfri spönginni!

Hér á landi er í boði að fá viðtal á kvennadeild við ljósmóður eða fæðingarlækni sem eru sérhæfð í að fara í gegnum erfiða fæðingarreynslu með væntanlegum foreldrum. Mér finnst líklegt að samskonar þjónusta sé í boði í Danmörku, án þess að vita það. En endilega spurðu ljósmóðurina sem þú hittir hvort þessi þjónusta sé til staðar, og veltu því alvarlega fyrir þér að nýta þér hana. Í svona viðtali er mun betri tími og ráðrúm til að spyrja og vera með vangaveltur, sérstaklega ef um örlitla tungumálaörðugleika er að ræða.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar um mismunandi leiðir til að koma í veg fyrir rifur í fæðingum. Niðurstöður eru misvísandi og líklega erfitt að koma með einhvern ”einn sannleika” í þessum efnum. Ef þú leitar á síðunni okkar undir ”rifur” koma upp nokkrar pælingar varðandi spangarrifur, s.s. um spangarolíunudd á meðgöngu. Þá hefur einnig komið í ljós að líklegast er að kona rifni síður ef hún stjórnar sjálf rembingnum og velur sér sjálf stellingu til að fæða í. Reynslan segir okkur líka að vefjagerð konunnar virðist skipta máli og líklega margt annað sem skiptir máli sem ekki enn er vitað.

Ég held að miklu máli skipti fyrir þig að reyna að fara vel í gegnum fyrri fæðingarreynslu til að láta „hana” ekki ná yfirtökum í væntanlegri fæðingu. Engin fæðing er eins og oft er fyrsta fæðing erfiðust en sú næsta gæti orðið ljúf og nærandi, þrátt fyrir að vera strembin. Vona að þér gangi vel og fáir betri svör við spurningum þínum.

Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. júlí 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.