Spurt og svarað

07. ágúst 2006

Stoðmjólk

Sælar,

Ég hef nokkrar spurningar varðandi stoðmjólkina  sem mælt með fyrir börn eftir 6 mánaða ef þau eru ekki á brjósti. Mér hefur sýnst á þeim upplýsingum sem ég hef fengið um þessa vöru að hún sé tilvalin fyrir íslensk börn því þau þjáist jafnan af járnskkorti. Mjólkin sé því járnbætt til að bæta þetta upp. Mín spurning er þessi, nýtist járnið börnunum eitthvað þegar það er gefið með mjólk?  Ég missti mikið blóð við fæðingu sonar míns sem nú er 7 mánaða og var uppálagt af lækni að taka inn 200 mg af járni á dag í þrjá mánuði. Þá var brýnt fyrir mér að borða alls ekki mjólkurmat með járninu því slíkur matur hindraði upptöku járns. Hins vegar var mælt með C vítamíni.  Ég er því ákaflega skeptíst varðandi Stoðmjólkina og get eiginlega ekki betur séð en að þetta sé hreinlega sölubrella .

Geri ég syni mínum grikk með því að gefa honum þurrmjólk fyrir 6 mánaða og eldri en ekki stoðmjólkina? Og hvar er besta uppspretta járns og c- vítamíns fyrir svona ung börn?

Þakkir fyrir góða síðu,

Kveðja,
Elín Björk.
Sæl og blessuð Elín Björk.
Það er rétt athugað hjá þér að fólki sem er að reyna að ná upp járnbirgðum er bent á að borða ekki mjólkurmat með járninntökunni. Kalk mjólkurinnar truflar upptökuna að einhverju leyti. Börn nærast hins vegar eingöngu á mjólk þannig að það er ekki hægt að komast hjá því í þeirra tilfellum. Því þurfa börn hlutfallslega meira járn en fullorðnir. Þau nýta það hins vegar alveg nægilega til að fá það sem þau þurfa.
Ástæðan fyrir því að mælt er með því að börn fái járnbætta stoðmjólk eftir 6 mánaða aldur er vegna þess að venjuleg nýmjólk er rýr af járni og börn nýta það líka illa. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þú gefir þurrmjólk sem hæfir aldri eða nýmjólk og gefir járn með.
Besta uppspretta járns og C-vítamíns sem á vegi mínum hefur orðið fyrir svo ung börn er smáttsöxuð steinselja með sítrónusafa kreistum yfir. Það þarf mjög lítinn skammt daglega, nýtist þeim mjög vel og flestum börnum finnst það gott.
Vona að mál hafi skýrst.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.