Spurt og svarað

07. júlí 2005

Sund með 8 vikna barn?

Sæl, ég vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef hérna, ég hef skoðað hann út í eitt alla meðgönguna og fann alltaf upplýsingar um allt sem mig langaði að fræðast um. Ég er núna búin að eiga og litli strákurinn er orðinn 7 vikna. Mig langar að spyrja þig hvernig lítið er á að móðir fari með 8 til 16 vikna barn í sund. Það er komið sumar og mig dauðlangar að skreppa með þann litla í sund hann er vel sprækur, vær og góður og drekkur vel alveg hraustur er 5,5 kiló. Ætti ég ekki bara að slá til og skella mér í sund í þessu frábæra sumarveðri. Við förum í útilegu bráðum og mig langar líka að fá góð ráð varðandi svefn í tjaldi hversu mikið á að klæða ungabarnið ofan í svefnpokann í tjaldinu og hvað er gott að vita þegar farið er í svona ferðir ég er aðallega að spá hvernig við getum haft brjóstagjöfina á nóttunni sem þægilegasta í tjaldinu sjálfu án þess að raska svefnrónni mikið.

Útivistarmóðirin.

..............................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Spurningar þínar höfða svolítið til almennrar skynsemi. Ekki get ég gefið nein afgerandi svör um þær. Varðandi sundið þá eru útisundlaugar ekki ákjósanlegur kostur fyrir svona ungt barn eins og þú átt. Lofthitinn er ekki nægur og hitinn í vatninu er of lítill. Skynsamlegt væri því fyrir þig að leita upplýsinga um börn og sund hjá þeim aðilum sem halda námskeið í ungbarnasundi. Fram kemur á heimasíðu leiðbeinanda í ungbarnasundi að æskilegur aldur til að fara með börn í sund sé u.þ.b. við 3½ - 4 mánaða aldurinn. En með því að bíða og leyfa barninu að stækka og þroskast, þá ert þú að fara með barnið á æskilegum aldri í sundlaug við ákjósanlegustu
aðstæður sem völ er á fyrir barnið s.s. hitastigið og er hærra en vanalega ef þú ferð í innisundlaug. Ég vil benda þér á að lesa eldri svör við fyrirspurnum um þetta efni. Ef þú ferð í dálkinn spurt og svarað finnur þú upplýsingar um þetta efni með því að slá inn leitarorðinu ungbarnasund til að fá upplýsingar hvar slík námskeið eru haldin. Til gamans má geta þess að með ungbarnasundi er verið að:

  • Tryggja vellíðan barnsins í vatninu
  • Venja barnið á að vera í vatni svo það nái valdi á líkama sínum í barnæsku
  • Stuðla að eðlilegum hreyfiþroska, líkamsvitund og sjálfsímynd.

Börn þurfa mismikla aðlögun í sundi og best er að hugsa fyrst og síðast um að barninu líði vel og gefa því þann tíma sem þarf. Líði barninu illa er óöruggt eða því er kalt þá getur það kvekst á vatninu. Best er að reyna að njóta sundsins og virða þroska og getu barnsins. Barnið lærir að treysta þér og verða öruggt í vatninu. Varðandi spurninguna um tjaldútilegur og klæðnað þá held ég að sé best fyrir þig að treysta á innsæi þitt sem móðir og eigið hyggjuvit í þeim efnum.

Sumarkveðjur,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. júlí 2005.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.